150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Kristín Traustadóttir (S):

Herra forseti. Mig langar að nota þennan lið til að vekja athygli á Rjóðri og því góða starfi sem þar er unnið. Rjóður er hvíldarheimili fyrir fötluð og langveik börn á aldrinum 0–18 ára. Það er hluti af kvenna- og barnadeild Landspítala og er unnið mjög náið með taugateymi Barnaspítala Hringsins. Það er staðsett í Kópavogi í sömu húsalengju og líknardeild Landspítalans. Dvalartími barna í Rjóðri er u.þ.b. sjö dagar í mánuði og dvelja þar fimm til sex börn á sólarhring í einu og þurfa þau öll á sólarhringsþjónustu að halda. Þetta krefst þess að mönnun verður að vera einn starfsmaður á hvert barn sem dvelur í Rjóðri hverju sinni.

Megintilgangur Rjóðurs er að létta undir með fjölskyldum fatlaðra og langveikra barna, búa þessum börnum notalegt heimili og veita þá þjónustu sem hver og einn þarf. Foreldrar og systkini fatlaðra barna þurfa tækifæri til að gera hluti sem ekki eru svo einfaldir í framkvæmd þegar langveikt eða fatlað barn er á heimilinu og svo er líka kærkomið fyrir barnið að fá frí frá daglegu amstri sínu.

Í Rjóðri er áhugi á því að útvíkka starfsemina og fá aukið húsnæði undir þjónustu við ungmenni sem orðin eru 18 ára. Þá vill svo heppilega til að milli Rjóðurs og líknardeildar er ónotað húsnæði í eigu Landspítala sem væri svo upplagt að nota í þessa þjónustu. Við 18 ára aldur falla niður svo margir þjónustuþættir og þarf að finna leiðir til að koma til móts við þarfir þessa hóps. Er þetta jafnvel eitt skref í því.

Ég hef lagt fram fyrirspurn þessa efnis til hæstv. heilbrigðisráðherra og langar mig líka að nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. ráðherra og einnig hv. velferðarnefnd til að gera sér ferð í Kópavoginn og kynna sér starfið í Rjóðrinu.