150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera stutta athugasemd við ræðu hv. þingmanns. Hún snýr að því að þjóðarsjóðurinn hefur engin áhrif á getu okkar til þess að sinna sameiginlegum verkefnum vegna þess að tekjur frá Landsvirkjun eða öðrum orkufyrirtækjum munu færast tekjumegin, útgreiðsla til sjóðsins ekki gjaldamegin. Þar af leiðandi, ef við erum að öðru leyti að uppfylla fjármálastefnu og erum innan markmiða fjármálaáætlunar, t.d. um afkomu, er hægt að efna til útgjalda til málaflokka eins og þeirra sem hv. þingmaður leggur hér áherslu á. Ef við myndum ekki koma á fót þjóðarsjóði myndi ekkert gerast í afkomu ríkisins, ekki neitt. Við höfum nákvæmlega sömu færi á að grípa til ráðstafana í reikningum okkar, t.d. til þess að sinna betur heilbrigðsmálum eða félagsmálum. Auðvitað eru áhrifin einhver en þau birtast bara ekki þarna. Þau birtast í fjármögnun verkefna þannig að þegar að því kemur að stofna til útgjalda, hvort sem væru til fjárfestinga eða annars staðar í kerfinu, mun reyna á það hvort ríkið þurfi að fjármagna sig. Með því að leggja fé inn í þjóðarsjóðinn dregur að sjálfsögðu úr lausafé ríkisins og það þarf að huga að því að ekki sé gengið svo á laust fé hjá ríkinu að við þurfum að taka há lán á vondum kjörum til þess að ráðast í þau verkefni sem eru í fjárlögum hverju sinni, bara vegna þess að menn ákváðu að ráðstafa lausafénu inn í þjóðarsjóð. Það má með sama hætti segja (Forseti hringir.) að það mætti eins greiða upp skuldir, eins og ég rakti í framsöguræðu minni. Þetta skiptir miklu máli að sé á hreinu í þessari umræðu.