151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi það að fella niður gjaldtöku á landamærum þá samsvarar kostnaðurinn, sem er í kringum 10.000 kr. eftir því hvort fólk sinnir forskráningu eða ekki, eða var það áður en breytingin gengur í gildi, í sumum tilvikum farseðlinum, greiðslunni fyrir það að borga lággjaldaflugfélagi fyrir að fljúga frá Evrópu til Keflavíkur. Það er mat þeirra sem eru á landamærum að það séu efnahagsleg rök fyrir því að fólk vill ekki fara í skimun og sýnatöku vegna þess að það horfi einfaldlega í þessar krónur. Sjálfri finnst mér það rök sem er vert að hlusta á. Ég heyri það sem hv. þingmaður segir að við séum þar með að greiða þetta úr ríkissjóði. Það er rétt. Hins vegar, þegar við vorum til að byrja með að fara yfir kostnaðinn við þessa framkvæmd, gerðum við ráð fyrir að 2.000, 3.000 eða 4.000 manns á dag færu í gegnum flugvöllinn og við gerðum ráð fyrir því að við settum upp þennan viðbúnað á landamærum fyrir þann hóp og að greiðslan myndi jafna út þau útgjöld sem ríkissjóður væri að ráðast í. Nú er það þannig við við erum að tala um kannski 300 manns á dag. Það er alveg ljóst að það er löngu orðið þannig að við erum í raun og veru að borga með þeirri framkvæmd að sinna tvöfaldri skimun á landamærum, sem er sérstök aðgerð og hún hefur, eins og kemur fram í máli hv. þingmanns, skilað mjög góðum árangri.

Varðandi það að skylda fólk í bólusetningu þá hefur það verið okkar hugmyndafræði á Íslandi, þegar við erum að tala um bólusetningar almennt, (Forseti hringir.) að það sé partur af stemningu og almennu viðhorf í samfélaginu að undirgangast bólusetningar frekar en það gerist með boðum og bönnum. Sóttvarnalæknir er þeirrar skoðunar og ég tek undir þá skoðun.