Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:30]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur fundist áhugavert að hlusta á tungutak hæstv. fjármálaráðherra. Hann talar mikið um kröfuhafa. Ég held hann hafi áhuga á því að það sé ekki mikið rætt um það hverjir þessir kröfuhafar eru. Að langstærstum hluta er þetta almenningur í landinu. Varðandi tjónið þá finnst mér augljóst að almenningur finnur alltaf fyrir því með einum eða öðrum hætti þegar langvarandi taprekstur er á rekstri hins opinbera. En í grunninn snýst þetta um það hvernig á að leysa úr þessu og hver réttarstaðan er. Ef það er skýrt að ríkið ber þarna ákveðna ábyrgð þá skiptir auðvitað engu máli hverjir eru þarna að baki. En við vitum hins vegar hverjir eru þarna að baki, við erum að tala um lífeyrissjóðina, og það er alger óþarfi að láta að því liggja, mér fannst ég aðeins greina það í umræðunni fyrr í dag, að tjónið myndi ekki bíta almenning. Það var sagt með einhverju orðalagi um kröfuhafa sem var einhver ósýnilegur hópur fólks. Ég held að stóra spurningin, fari svo að þetta mál komi til þingsins, sé að ræða það hver eigi að taka þennan reikning og með hvaða hætti. Verði það ríkissjóður þá eru auðvitað alls konar útfærslur á því til að verja viðkvæma hópa o.s.frv. En síðan finnst mér líka allt of lítið rætt um það, og mér finnst það áhugavert þegar hægri maður situr í fjármálaráðuneytinu, hver skaðinn er af því að veikja traust ríkisins á mörkuðum, hver skaðinn er af því ef við förum að horfa upp á breytingar á lánshæfismati ríkisins, hver skaðinn er af því að breytingar verði á ávöxtunarkröfunni. Við heyrum hvernig lífeyrissjóðirnir sjálfir tala, þeir tala um eignaupptöku. Þessi orð fjármálaráðherra og framsetning hans í blábyrjun þessa máls voru ótrúleg. Epískt klúður.