154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

endurgreiðslukerfi vegna viðgerða á rafmagnstækjum.

391. mál
[17:23]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál og sömuleiðis hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég tek alveg undir það hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að okkur liggur á. Við ræddum hérna bara um raftækin, fyrirspurnin var um þau og ég reyndi að svara henni eins vel og ég gat, en við erum búin að gera ýmislegt. Við erum núna að stofna hringrásarklasa sem kemur til í tengslum við hóp sem var stýrt af Þór Sigfússyni, sem er nú upphafsmaður að sjávarútvegsklasanum sem gengur nákvæmlega út á þetta, að endurnýta hluti. Við nýtum nærri 100% af aflanum meðan hent er um 50% af aflanum úti í heimi. Margt af því sem við hentum áður er jafnvel verðmætara en það sem við höfum alltaf nýtt. En út úr þessum hópi kom ekki bara það að við ætlum að fara í þessa vinnu heldur byrjuðu menn. Við byrjuðum bara með 25.000 tonn af malbiki, endurnýting, 30.000 tonn af lífgasi, nýting, 2.500 tonn af textíl, endurnýting, 5.000 tonn af bílavarahlutum, endurnýting, 4.000 tonn af fiskafurðum, fullnýting. Þess vegna hét nú kynningin á þessu verkefni 200.000 tonn af tækifærum. Það er bara allt sem mælir með þessu. Við getum líka lært af því sem var gert því að við fórum svo sannarlega betur með hlutina. Við hentum miklu minna og það er enginn sem er kominn á minn aldur sem getur sagt: Þetta var hræðilegt hérna þegar ég var að alast upp. Við vorum að nýta hlutina betur og því getur enginn sagt það eða haldið því fram. Ég lít á þetta sem spennandi og skemmtilegt verkefni. Við þurfum líka að sjá til þess að það sé fólk, t.d. bara eins og skósmiðir, við verðum að sjá til þess að það sé nægilega margt af því góða fólki. Ég heimsæki þá stundum og spjalla við þá, þeir eru að vinna magnað starf en okkur vantar fleiri. Ég held að það sé líka liður í þessu að bara taka umræðuna, þannig að ég (Forseti hringir.) þakka aftur hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að taka þetta mál upp og öðrum þeim þingmönnum sem hér tóku til máls því að þeir voru allir mjög málefnalegir og með góðar ábendingar.