131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Skattgreiðslur Alcan á Íslandi.

258. mál
[14:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Bæði spurning hv. þingmanns og svar hæstv. fjármálaráðherra gefur okkur tilefni til að beina sjónum að þessum samningum sem gerðir eru við stórfyrirtæki í þungaiðnaði á Íslandi. Spurningin er um það til hve langs tíma þessir samningar eru gerðir og hvaða fríðinda þessi fyrirtæki njóta þegar þau koma inn á okkar íslenska markað. Þau eru þess eðlis að það er eðlilegt að við setjum spurningarmerki við þau.

Mér fundust koma fram í svari hæstv. fjármálaráðherra ákveðin atriði sem gefa okkur tilefni til vangaveltna, í öllu falli það, um þessa langtímasamninga. Ég er sjálf hlynnt því að þessi fyrirtæki komi inn í íslenskt skattumhverfi og meginreglan í þessum efnum ætti auðvitað að vera að þau starfi á Íslandi samkvæmt íslenskum skattalögum en ekki við þau gífurlegu fríðindi og þá langtímasamninga sem hafa tíðkast hingað til.