133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:40]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri á hv. þingmanni að hann dregur enn í land. Ég vil að það komi skýrt fram af minni hálfu að ég tel enga ástæðu til að breyta fyrirkomulagi um skipan ríkisendurskoðanda eða hvernig hann er valinn. En ef hv. þingmaður telur að pólitísk samstaða sé um að breyta þessu skipulagi, og hafi hann einhverjar aðrar hugmyndir þá er sjálfsagt að ræða þær, bæði við hann og aðra. Ég er í sjálfu sér tilbúinn til þess en menn geta ekki komið þegar einhver niðurstaða Ríkisendurskoðunar er hv. þingmönnum ekki þóknanleg og sagt: Það þarf að breyta því hvernig ríkisendurskoðandi er valinn. Það er sérkennilegt til þess að vita að hv. þingmaður, sem nú situr sitt síðasta þing, sé farinn að sækja hugmyndir til Ameríku. Öðruvísi mér áður brá.