145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Mér finnst alls ekki skemmtilegt að koma í þennan ræðustól aftur og aftur til að ræða sömu mál sem er léleg þjónusta við fatlað fólk, oft svo léleg að hún er hreinlega mannréttindabrot. Það er aumt og ömurlegt að þannig skuli þetta vera í okkar ríka landi.

Í 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“

Þetta er gott og sjálfsagt markmið og falleg orð. En var það vilji löggjafans að þetta ættu bara að vera falleg orð sem breyttu litlu fyrir fólk af holdi og blóði? Ég vona ekki og ég held ekki. En ég skil mjög vel að margt fatlað fólk og margir aðstandendur þess spyrji þessarar spurningar í fullri alvöru.

Í 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks segir líka að tekið skuli mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Grundvallarþættirnir í þeim mikilvæga mannréttindasamningi eru virðing gagnvart fötluðu fólki og skilningur á aðstæðum þess og tækifærum til að lifa eðlilegu lífi.

Í vikunni var sagt frá því í fjölmiðlum hvernig verkföll hafa ítrekað sett líf fatlaðs 19 ára manns sem sækir skóla en þarf hjálp við allar daglegar athafnir algerlega úr skorðum og einnig líf foreldra hans því fatlaðir nemendur fá enga þjónustu þegar skóla er lokað vegna verkfalla og þurfa foreldrar þá að taka að sér alla umönnun þeirra.

Herra forseti. Hvernig rímar þetta við markmiðin góðu og fallegu orðin í lögum um málefni fatlaðs fólks og mannréttindasamningum um sambærileg lífskjör við aðra, eðlilegt líf, jafnrétti, virðingu og skilning? Skammarlega lítið auðvitað. Og hvort sem ástæðan er virðingarleysi, skilningsleysi eða bara rænuleysi af verstu tegund hljótum við að gera þá kröfu að menntamála- og velferðaryfirvöld kippi þessu í liðinn og láti þetta ekki endurtaka sig. Mannréttindi snúast um virðingu og skilning og það þarf að sýna í verki en ekki bara í orði.


Efnisorð er vísa í ræðuna