Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

131. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum fordæmi um ákveðna forskrift, sem er mjög gott framtak þáverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, sem ákvað fyrir um tveimur árum síðan að leita til OECD þegar kom að starfsumhverfi, samkeppnisumhverfi innan ferðaþjónustunnar. Það er bara gott dæmi um hvernig hægt er að vinna þetta. Ég hef sérstaklega dregið þetta dæmi fram af því að mér fannst það vera mikilvægt, ekki síst fyrir þessa grundvallaratvinnugrein sem er að byggjast upp. Hvernig getum við lært af grannþjóðum okkar? Hvernig getum við líka lært af öðrum atvinnugreinum sem hafa styrkt sig mjög í sessi og eflt sig hér innan lands? Það er eitt dæmi um verklag sem ég vil benda á.

Hagsmunasamtök. Já, að sjálfsögðu verður höfð samvinna og samband við þessi hagsmunasamtök. En ég vil leyfa mér að óska þess, af því að frelsi og svigrúm ráðherra er samkvæmt þessari tillögu svolítið mikið, að það verði samt þessi armslengd. Af því að við sjáum hagsmunasamtök — við sjáum bara nýstofnuð hagsmunasamtök í landbúnaði sem hafa það að markmiði að viðhalda öllum undanþágum frá samkeppnisreglum taka sérstaklega undir þær tillögur sem ég hef gagnrýnt mjög harkalega hér, þ.e. að fjölga undanþágum frá hinum almennu samkeppnisreglum, þannig að fólk þarf að hafa fyrirvara á því hvernig slíkt samráð er. Sjálfstæði þeirra sem fara yfir þetta og gera svona úttekt verður að vera algert.

Ég óska þess kannski fyrst og síðast að haft verði samráð við efnahags- og viðskiptanefnd þingsins um það hvernig á að vinna að svona tillögu. Ég held að þetta sé góður grunnur til þess alla vega að byrja að dýpka umræðuna um það hversu mikilvæg samkeppnin er fyrir samfélagið, samkeppni sem við hv. þingmaður erum sammála um að sé mikils virði fyrir okkur öll.