137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr):

Frú forseti. Í dag mæli ég fyrir fyrsta frumvarpi Borgarahreyfingarinnar. Þetta frumvarp endurspeglar stefnu Borgarahreyfingarinnar í hnotskurn. Okkar markmið með veru okkar hér á þingi markast sterklega af þeirri stefnu að færa meira vald til þjóðarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvægur áfangi í þá veru. Þjóðin má aldrei aftur þurfa að vera í þeirri stöðu að hafa ekkert um mál er varða þjóðarhag að segja. Þjóðin á aldrei að þurfa að vera í þeirri stöðu að sitja uppi með vanhæfa ríkisstjórn sem hún getur ekki losað sig við nema með mótmælum.

Eðlilegra er að þjóðin geti kallað eftir því ef slíkar aðstæður koma aftur upp að lýsa vantrausti á slíka stjórn með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er lítil hætta á því að þessum sjálfsagða rétti verði misbeitt af þjóðinni. En það er afar mikilvægt aðhaldstæki fyrir ráðamenn að vita til þess að hægt sé að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem eru umdeild meðal þjóðarinnar. Ef slíkt úrræði hefði verið til áður en tveir menn ákváðu upp á sitt einsdæmi að þjóðin yrði þátttakandi í árásarstríði á hendur annarri þjóð hefðum við aldrei þurft að lifa með þann smánarblett sem sá gjörningur var.

Frumvarpið er samið með hliðsjón af því að í janúar síðastliðinn kom til mestu og alvarlegustu mótmæla Íslandssögunnar fyrir utan þetta hús þegar þúsundir landsmanna kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar. Almenningur hafði enga lögmæta leið til að koma ríkisstjórninni frá og krefjast kosninga og því brá fólk á það örþrifaráð að trufla störf þingsins með afgerandi hætti. Ekki kom til óeirða eða blóðsúthellinga í þetta sinn en reynsla annarra þjóða sýnir þó að mjótt getur verið á mununum. Þar sem stjórnskipanin gerir ekki ráð fyrir öðru en að forsætisráðherra hverju sinni sé sá eini sem getur rofið þing er ljóst að slík staða sem kom upp í janúar getur hæglega komið upp að nýju. Brýnt er því að til séu úrræði í íslenskri löggjöf sem geta fært þingrofsvaldið á fleiri hendur en eins manns.

Um árabil hafa verið uppi háværar kröfur um aukna aðkomu almennings að mikilvægum ákvörðunum er varða alla þjóðina, framtíð hennar og lífsafkomu. Slíkar ákvarðanir hafa hingað til verið algjörlega í flokkspólitískum farvegi hér á þinginu og taka jafnvel mið af sjónarmiðum fjársterkra sérhagsmunahópa. Þessi þróun hefur veikt þingræðið gagnvart framkvæmdarvaldinu undanfarna tvo áratugi og hefur einnig gert það að verkum að valdaframsal frá almenningi til þingsins á fjögurra ára fresti hefur verið gróflega misnotað. Því er nauðsynlegt að hér verði til staðar úrræði sem veitir bæði löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu meira aðhald en verið hefur. Horft hefur verið til þess meðal annars að í Danmörku getur þriðjungur þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þótt ekki hafi komið til þeirrar kröfu í danska þinginu virðast áhrifin vera þau að löggjöf almennt er síður umdeild. Meira tillit er tekið til andstæðra sjónarmiða um leið og reistar eru skorður við yfirgangi framkvæmdarvaldsins.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru sjálfsagður réttur almennings til að hafa meiri áhrif. Því er brýnt að umhverfi og utanumhald verði ekki á sömu flokkspólitísku nótum og almennar alþingiskosningar með sínum pólitísku kjörstjórnum. Stofnun Lýðræðisstofu, sem lögð er til í frumvarpinu, er mikilvægt skref í þá átt að færa þjóðaratkvæðagreiðslur og allt umhverfi þeirra, svo sem samningu spurningarinnar, kynningu á efninu og annað utanumhald, frá þeim flokkastjórnmálum sem hingað til hafa einkennt íslenska stjórnmálaumræðu. Í frumvarpinu er lagt til að Lýðræðisstofa sjái um að kynna viðkomandi mál á hlutlausan hátt fyrir öllum landsmönnum. Stofunni yrði skylt að setja mál fram með einföldum og auðskildum hætti þar sem allir líklegir kostir þess og gallar eru tilgreindir sem og hugsanlegur fjárhagslegur tilkostnaður eða sparnaður fyrir fjárhag ríkisins og fyrir þjóðarbúið í heild.

Mikilvægt er að hafa í huga að mjög víða eru í gildi einhvers konar takmarkanir um hvaða mál raunhæft og eðlilegt sé að útkljá í þjóðaratkvæðagreiðslum. Vel má hugsa sér að fjárlög og skattheimta hvers árs sem og ýmiss konar árleg löggjöf sem sett er árlega til viðhalds daglegum rekstri ríkisins verði undanskilin. Einnig er mikilvægt að almennum hegningarlögum sé ekki hægt að breyta með slíkri einfaldri atkvæðagreiðslu.

Tildrög þessa frumvarps eru þau að hugmyndir Borgarahreyfingarinnar hafa ekki fengið hljómgrunn í vinnuhópi forsætisráðherra um persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing. Borgarahreyfingin telur að þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarp það sem vinnuhópurinn hefur skilað forsætisráðherra og verið kynnt í ríkisstjórn sé algjörlega óásættanlegt.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvægari lýðræðinu en svo að þeim megi eingöngu beita fyrir atbeina þess pólitíska meiri hluta Alþingis sem situr hverju sinni eða forseta Íslands, líkt og verið hefur. Borgarahreyfingin hefur því farið þá leið að endurbæta frumvarp vinnuhópsins þannig að það endurspegli kröfu almennings um aukið lýðræði, kröfuna um að almenningur á Íslandi geti haft meira að segja um sín brýnustu hagsmunamál og mikilvægustu mál lands og þjóðar og geti gert það fyrir eigið frumkvæði og fyrir eigin atbeina.

Í 2. gr. er lagt til að stofnuð verði Lýðræðisstofa og að umboðsmaður Alþingis fari með yfirstjórn hennar. Hún verði starfrækt á skrifstofu umboðsmanns Alþingis og að hann ráði einn fastan starfsmann, skrifstofustjóra. Auk þess verði umboðsmanni heimilt að ráða fleiri starfsmenn til að sinna auknum eða tímabundnum verkefnum stofnunarinnar.

Hugmyndin með stofnun Lýðræðisstofu er að tryggja að hlutleysis sé gætt við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, meðal annars við kynningar á því málefni eða lagafrumvarpi sem samþykkt hefur verið að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um. Þá er mikilvægt að viðkomandi stofnun og sá sem henni stýrir njóti trausts almennings og telja flutningsmenn að það sé óumdeilt að umboðsmaður Alþingis njóti þess.

Með þessu er umboðsmanni Alþingis fengið aukið hlutverk sem flutningsmenn telja að geti mjög vel samræmst meginhlutverki hans sem felst meðal annars í því að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins og gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Með þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt frumvarpinu er í reynd verið að kalla eftir vilja þjóðarinnar í afstöðu til ákveðins málefnis eða lagafrumvarps.

Í 3. mgr. 14. gr. laga um umboðsmann Alþingis er tekið fram að ef kjörnum umboðsmanni eru falin sérstök tímabundin verkefni af hálfu Alþingis getur forsætisnefnd Alþingis að beiðni kjörins umboðsmanns samþykkt að setja annan mann til að sinna starfi umboðsmanns þann tíma eða samhliða kjörnum umboðsmanni. Telja flutningsmenn að rétt sé að fela umboðsmanni það sjálfum að skoða hvort hann mundi óska eftir að annar maður sé settur til starfans þar sem umboðsmaður mun geta falið skrifstofustjóra dagleg verkefni og almennt skipulag verkefna Lýðræðisstofu og því reyni í reynd á stjórn umboðsmanns yfir stofunni að takmörkuðu leyti og einungis tímabundið þegar kemur að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar sjálfrar í samvinnu við yfirkjörstjórnir.

Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði út af því að það sem maður hefur rekið sig á trekk í trekk þegar fjallað er um stór málefni — ég get bara hreinlega nefnt ESB-umræðuna — þá er það alltaf út frá ákveðnum hagsmunum. Þær upplýsingar sem maður fær eru ekki hlutlausar. Varðandi til dæmis upplýsingar frá Samfylkingunni þegar hún fjallar um Evrópusambandið þá er í raun og veru ofboðslega erfitt að finna einhverjar upplýsingar sem eru ekki bundnar því að það sé eina lausnin. Ég held að ef við gætum fengið embætti eins og Lýðræðisstofu, þ.e. ef við hugsum okkur Lýðræðisstofu sem er sambærileg við álíka stofnanir í til dæmis Bandaríkjunum þar sem það er eingöngu hlutverk stofnunarinnar að láta almenningi í té upplýsingar sem eru ópólitískar og ekki tengdar hagsmunum.

Ég vona að þetta frumvarp komi til með að fá afgreiðslu hérna á þingi. Þetta er það sem fólkið er að kalla eftir, fólkið sem er hérna úti til dæmis í dag, að fá að hafa áhrif. Ef þær 30 þúsund manneskjur sem hafa skráð sig inn á Facebook sem krefjast þess að við skrifum ekki undir Icesave gætu fengið að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um það þá getur maður kannski farið að sofa rólegur á næturnar um að það verði ekki samþykkt hér á þingi.