139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hver þessi hlutlausi aðili ætti að vera. Ég gæti vel ímyndað mér að það yrði þá aðili þar sem sætu þrír fulltrúar, þ.e. fulltrúi starfsmannsins, atvinnurekandans og síðan hlutlaus aðili. Væntanlega mundi þessi hlutlausi aðili vera á vegum sáttasemjara en þetta er bara útfærsluatriði. Eins og stendur í þingsályktunartillögunni er ætlunin að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að fullgilda þessa samþykkt.

Ég geri ráð fyrir því, varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, að einhverjar ábendingar komi við umfjöllun félags- og tryggingamálanefndar um hvort fara þurfi í breytingar á lögum um opinbera starfsmenn eða ekki og að þær ábendingar sem þar koma fram muni þá koma fram í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar og fylgja með þessari þingsályktunartillögu til ríkisstjórnarinnar sem Alþingi ætlar þá að fela að fullgilda þessa samþykkt.