141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[15:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lausatökin hér eru nú ekki meiri en svo að við erum búin að vinna okkur út úr þeim halla sem við getum öll verið sammála um að hafi verið brjálæðislegur yfir í það að vera búin að ná jöfnuði á næsta ári. Það hlýtur, virðulegi forseti, að vera stóra málið. Menn hljóta, sama hvar þeir standa í flokki, að fagna þeirri niðurstöðu, ég trúi ekki öðru.

Virðulegi forseti. Við erum líka enn að súpa seyðið af hruninu sem hér varð á árinu 2008, hruni fjármálakerfisins og hruni gjaldmiðilsins. Við höfum verið að fá ansi marga reikninga þess vegna í höfuðið, þar á meðal SpKef eins og fram kom hér áðan. Þess vegna kemur það inn á óreglulega liði og kemur inn í ríkisreikning og lokafjárlögin. Vonandi er það líka síðasti reikningurinn sem við fáum úr þessu eftir hrunið með þessum hætti.

Hv. þingmaður vísaði í orð mín sem ég lét falla á þingi um daginn þar sem verið var að ræða skýrsluna um framlögin í bankakerfið. Það er rétt hjá honum, ég sagði að 28% af skuldum ríkisins væru vegna hruns fjármálakerfisins beint, þ.e. þetta voru hin beinu framlög inn í bankana og skuldir sem eru tilkomnar út af því. Síðan eru ótaldar skuldirnar, og hinar skuldirnar má vissulega rekja til annarra afleiðinga og allra hliðaráhrifanna sem hrunið hafði, þannig að það sé haft algjörlega rétt eftir mér. Þetta voru 28% af beinum kostnaði.

En hliðarafleiðingarnar hafa verið stórkostlegar eins og hv. þingmaður veit, virðulegi forseti, það er það sem við erum að gjalda fyrir með töluverðum skuldum. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt á það ofurkapp að stöðva skuldasöfnunina til að við getum farið að greiða þær skuldir hratt og örugglega niður.