145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda var haldinn síðastliðinn föstudag og kom fram í setningarræðu formannsins, Halldórs Ármannssonar, að hann lagði mikla áherslu á öryggisþætti um borð í bátum og mikilvægi þess að sjómenn gætu treyst þeim. Benti Halldór á mikilvægi þess að læra af því sem gerðist þegar Jón Hákon BA sökk síðasta sumar út af Aðalvík. Öryggisþættirnir sem bátsverjarnir á Jóni Hákoni áttu allt sitt undir brugðust á allan hátt. Allt ferlið verður því að endurskoða og það verður að ná skipsflakinu af hafsbotni svo rannsaka megi orsakir slyssins og tryggja þar með öryggi sjófarenda, því að sjómenn mega ekki upplifa falskt öryggi.

Það kom fram í Kastljósi á dögunum að sleppibúnaður er til rannsóknar hjá Samgöngustofu. Forstjóri Samgöngustofu segir í fréttum að það séu engar efasemdir um virkni búnaðarins sem nú er í notkun. Þetta er svolítið furðulegt því að ég óskaði eftir því að ræða þetta slys og hvað væri verið að gera af hálfu rannsóknarnefndar samgönguslysa nú á dögunum í atvinnuveganefnd. Þar komu fulltrúar frá Samgöngustofu, innanríkisráðuneytinu og rannsóknarnefndinni. Fulltrúar frá Samgöngustofu upplýstu ekki nefndina um að búnaður væri til rannsóknar. Mér finnst það með ólíkindum. Það er óásættanlegt að sjómenn eigi að búa við óvissu um hvort björgunarbúnaður þeirra virki eða ekki.

Ég skora á rannsóknarnefnd samgönguslysa að hrista af sér slyðruorðið og gera eitthvað í málunum. Þetta er óásættanlegt. Þessi nefnd er ekki svo háæruverðug að ekki megi gagnrýna það að hún dragi lappirnar við að draga flakið upp, áður en það verður kannski of seint til þess að það nýtist sem sönnunargagn. Það á að ná flakinu upp strax, rannsaka málið og koma í veg fyrir sambærileg slys í framtíðinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna