154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

fjarnám á háskólastigi.

72. mál
[17:41]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu um fjarnám á háskólastigi sem ég er meðflutningsmaður að. Eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir sagði þá er þetta mjög mikilvægt fyrir búsetufrelsi, að fólk geti búið alls staðar á landinu og jafnvel erlendis, fyrir Íslendinga og aðra sem vilja stunda nám hér á landi. Við höfum lært ýmislegt á þessari öld. Það má kannski segja að við höfum byrjað á fjarnámi rétt fyrir síðustu aldamót.

Ég sat einmitt málþing á vegum Háskólaseturs Vestfjarða núna í vor þar sem var verið að halda upp á að 25 ár voru liðin frá því að nám í fjarnámi var hafið, það voru sem sagt tíu nemendur á Ísafirði sem byrjuðu í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri í fjarnámi. Þetta var kennt en skilyrðið á þeim tíma var að það væru tíu nemendur við nám og það varð að halda út allt skólaárið því að ef það fækkaði í níu þá taldi skólinn sig ekki geta staðið undir þessu námi. Það var náttúrlega svolítil svipa á þá nemendur sem hófu námið. Þetta voru tíu konur og það voru náttúrlega alls konar aðstæður hjá þeim, bæði eignuðust þær börn á meðan þær stunduðu námið og það var alltaf þessi svipa, þær urðu að halda saman til þess að námið héldi áfram. Þær luku allar námi. Reyndar lést ein kona á meðan náminu stóð og önnur kom í staðinn en tíu útskrifuðust sem hjúkrunarfræðingar. Ég held að þær séu allar enn þá starfandi hjúkrunarfræðingar, bæði fyrir vestan og hér fyrir sunnan og sumar hafa bætt við sig námi, aðrar farið í einhverjar hliðargreinar hvað þetta varðar. En það var virkileg lyftistöng fyrir svæðið að það væru tíu konur sem færu af stað í þetta nám því að okkur vantaði náttúrlega hjúkrunarfræðinga og ég held að það hafi verið bæði þeim að þakka og þá sérstaklega Háskólann á Akureyri að það var viðurkennt að þetta væri hægt. Ég man eftir framsögu sem ein konan hélt sem hafði yfirskriftina: Halló, halló, heyrið þið í okkar þarna á Ísafirði? Tæknin sem var þá til staðar var náttúrlega ekki beysin. En þetta tókst og þær voru allar fullgildir hjúkrunarfræðingar frá fyrsta degi.

Þetta er líka, eins og kom fram hjá flutningsmanni áðan, að breytast svo mikið. Fyrir 20, 30, 40 árum tók ungt fólk sig upp til þess að fara í nám og hluti af náminu hjá ungu fólki, kannski tvítugu fólki, að fara suður í háskólanám eða framhaldsnám eða erlendis, var að afla sér þessarar reynslu og koma svo heim ekki bara með útskriftarplaggið í vasanum heldur líka reynsluna af því að búa á öðrum svæðum. En nú erum við að tala um að fólk er náttúrlega að læra allt lífið og við getum verið að skipta um starfsvettvang alveg þangað til að við hættum að nenna að læra eitthvað nýtt sem flestir eru farnir að gera bara út ævina. En þá eru kannski aðstæður allt öðruvísi en þegar tvítugt fólk tekur sig upp með nesti og nýja skó og hleypir heimdraganum. Þú ert kannski með fjölskyldu, bæði börn og maka sem eru kannski föst í námi og komast ekki til að afla sér þeirrar menntunar sem þarf og sem þau langar til að nýta.

Hv. þingmaður nefndi einmitt framhaldsnám í sálfræði. Ég þekki nokkra sem hafa komið til mín og kvartað undan þessu, þau eru búin með BA-námið í sálfræði en komast ekki lengra og geta bara ekki eða hafa ekki aðstöðu til að taka fjölskylduna upp. Þetta eru kannski fimm, sex manns, og hefja búsetu annars staðar og finna vinnu og allt sem það kostar. Þau væru svo til í að geta stundað fjarnám í þessu. Ég nefni næringarfræði, grunnnám eða framhaldsnám í næringarfræði, það er ekki hægt að stunda það í fjarnámi. Þarna er ég að nefna námsleiðir sem maður myndi halda að hentuðu til slíks.

Ég held að við þurfum að hugsa aðeins öðruvísi og ég held að við séum að taka svolítið við okkur í þessum efnum. Það eru skólar sem bjóða nám í fjarnámi, sumir bara alfarið, eins og Háskólinn á Bifröst sem hefur verið mjög framarlega í þessu. Háskóli Íslands er að auka sitt fjarnám en mætti gera betur og Háskólinn á Akureyri býður upp á allt sitt nám með rafrænum og sveigjanlegum hætti. En ég held að við getum bara horft til þess að í takt við tímann þá verðum við að horfa á þessa leið. Það er markmið allra að verða sterkari með aldrinum og það að maður geti farið í nám sem við getum nýtt í þágu samfélagsins eða í nýtt starf er mjög mikilvægt um allt land og jafnvel um allan heim.