133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Það er gott að fram fór þetta samtal sem er alveg lífsnauðsynlegt því skörunin á milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og þessa nýja safns er vandmeðfarin. Því er mjög mikilvægt að farið sé að öllu með gát og að allir séu upplýstir og taki beinan þátt í þeirri skilgreiningu sem þarf að fara fram og er auðvitað ekki nægilega skýr í frumvarpinu eins og það er núna. Ég held að nefndarstarfið komi til með að fara að hluta til í að skilgreina og afmarka starfssvið safnsins til að hægt sé að skilja á hvaða hátt það greinir sig frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Það er hins vegar fengur að því sem hæstv. ráðherra kom með fram í sinni ræðu er hún kom með þessa skilgreiningu Alþjóðaráðs safna á rannsóknarskyldu safna og ber auðvitað að hafa það í huga þegar málið er unnið.

Síðari spurning mín til hæstv. ráðherra varðar fjármálin. Nú rekum við okkur á það sem erum að skoða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að Náttúruminjasafn Íslands er ekki sérgreindur liður í þessu fjárlagafrumvarpi. Það hefur komið fram í umræðunni og í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu, ef ég man rétt, að ætlast sé til þess að hæstv. ráðherra fjármagni það sem gera þarf á næsta ári af óskipum liðum ráðuneytisins. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún það vera ásættanlegt?