145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

hælisleitendur.

[12:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Helsta áskorun okkar í málaflokknum nú um stundir er aukningin og þá málsmeðferðarhraðinn. Það er erfitt fyrir fólk í þessari stöðu hvað þetta kerfi okkar hefur tekið langan tíma af því að oft á því tímabili þegar verið er að bíða hefur fólk byrjað að kynnast samfélaginu sem gerir þetta allt miklu snúnara. Við höfum því verið að leggja áherslu á að koma þessu öllu í lag. Þetta eru náttúrlega praktísk atriði sem þurfa að vera í lagi.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um sveitarfélögin, þá er það nú ekkert launungarmál, þegar litið er til okkar hluta af þessu verkefni sem eru hælisleitendur, að okkur hefur gengið afar misvel að ná samningum við sveitarfélög út af þessum hópi. Mér hefur þótt meiri áhugi vera á kvótaflóttamönnunum og mér hefur þótt það mjög miður af því að hér erum við að tala um fólk sem er komið til Íslands. Ég hefði því viljað hvetja sveitarfélögin til að taka betur utan um þennan málaflokk með okkur. Þetta er ekki eitthvað sem við gerum ein.