145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt sem fram kemur hjá þingmanninum að það hefur náttúrlega verið hert að utanríkisráðuneytinu svo sem eins og öllum ráðuneytum og ríkisrekstri hér eins og nauðsynlegt var eftir 2008.

Það vakti sérstaka athygli í byrjun þessa kjörtímabils hvað alltaf var hert meira að utanríkisráðuneytinu en öðrum ráðuneytum, enda eru ýmsir áhrifaríkir í fjármálum ríkisins og Alþingis, og sérstaklega formaður fjárlaganefndar, hún sýndi hér einu sinni í atkvæðagreiðslu sérstakan fjandskap við Þróunarsamvinnustofnun. Við virðumst vera með frekar mikla fóbíu fyrir því að anda að okkur alþjóðlegu lofti almennt. Þá segi ég: Ef færa á þessa starfsemi inn í utanríkisráðuneytið, á þá að nota þá peninga sem við setjum í Þróunarsamvinnustofnun í annað? Heldur hv. þingmaður að það verði þá kannski þannig að hægt verði að fara að hreyfa þá peninga og nota þá í einhver önnur verkefni en Þróunarsamvinnustofnun, kannski til að — ja, ég veit ekki hvað, styrkja einhverja aðra þætti í utanríkisþjónustunni eða eitthvað slíkt? Erum við þá búin að missa utanumhaldið um peningana sem eiga að fara í Þróunarsamvinnustofnun? Er hætta á því?