149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Smára McCarthy, fyrir þessa þörfu og góðu umræðu. Það er svolítið merkilegt sem ég ætla að byrja á því að segja en ég óska ríkisstjórninni til hamingju með þann augljósa og góða vilja sem hún sýnir í störfum sínum hvað varðar loftslagsmálin og varnir í þeim málum.

Betur má þó ef duga skal. Litlir þættir verða í samhenginu risastórir. Tökum skemmtiferðaskipin sem dæmi. Þeim fjölgar, þau verða 140 á næsta ári að því er talið er. Eitt skip er talið menga á einum sólarhring á við 10.000 bíla. Þessi 140 skip menga þá á við 1,4 milljónir bifreiða.

Nú er alltaf verið að tala um hve mikið bílarnir menga en við vitum að það er búféð okkar og nautgripirnir sem talin eru bera ábyrgð á 14% af allri gróðurhúsamengun á jörðinni. Ég er ekki að segja það, og mér líst engan veginn á það, að þróunin verði slík að við þurfum öll að fara að borða grænmeti eða verða vegan til að reyna að laga það, en það er samt sem áður gott fyrir þá sem vilja gera það. Ef það er framtíðin munum við ekki skorast undan því hér á hv. Alþingi, er það nokkuð? Það er bara allt í lagi að við göngum á undan með góðu fordæmi eins og við erum að gera hér eftir sem hingað til.

Ég segi bara: „Go“, áfram við. Ég trúi því að þetta sé eitt af þeim málum sem við getum öll verið sammála um að við eigum að berjast fyrir með kjafti og klóm, öll sem eitt.