150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[11:58]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði þar sem meginefnið er sterkari minnihlutavernd, gerð arðskráa og breytingar á greiðslu kostnaðar á störfum arðskrárnefndar. Ég álít þetta mjög mikilvægt mál og lið í að styrkja lagaumgjörð um auðlindir landsins. Ég vil bæði þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni sem talaði næst á undan mér fyrir frumkvæði hans á þessu sviði þegar hann lagði fram frumvarp á síðasta ári og eins taka undir margt, ef ekki velflest, sem fram kom í ræðu hans. Ég undirstrika það sem þar kom fram, að upphaflegur tilgangur laga um lax- og silungsveiði var einmitt að styðja við búskap og búsetu í strjálum byggðum um landið.

Minnihlutaverndin sem lögð er til í þessu frumvarpi er, eins og áður kom fram, eitt af púslunum sem verður að vera í lagi til þess að búa til skilyrði og aðstæður fyrir þá sem vilja setjast að í dreifbýlinu og er þess vegna nátengd þeirri tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í jarðamálum sem ég lagði fram fyrr í vetur ásamt öllum þingmönnum Framsóknarflokksins. Þar er einmitt 7. liðurinn að lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð, þar á meðal lögin um lax- og silungsveiði sem oft ganga undir nafninu lög um veiðifélög. Þar er fjallað um þennan lið, sérstaklega mikilvægi þess að ábyrgð og skyldur sem fylgja eignarhaldi á landi séu skýrð. Ég álít að skyldan til þátttöku í veiðifélagi sé hluti af því að axla ábyrgð og skyldur sem fylgja því að eiga land sem fylgja veiðihlunnindi. Það er mjög mikilvægt að það sé skýrt hvers vegna þessi skylda er fyrir hendi. Það að veiðifélög starfi við veiðiár er umhverfis- og auðlindamál og mikilvæg byggðastoð, eins og áður er komið fram. Hlunnindi eru og hafa verið grundvöllur búsetu á mörgum jörðum í landinu. Þau hafa verið það um aldir og eru það enn þá í dag. Þess vegna horfum við upp á veikingu byggða þar sem þeir sem búa á svæðunum eru í minni hluta í veiðifélögum og arðurinn er hættur að skila sér inn í samfélagið. Það hefur bein áhrif á veikingu bæði dreifbýlisbyggðarinnar og líka samfélaganna vegna umsvifa, bæði beint til sveitarfélaganna og annarra umsvifa í sveitarfélögunum. Það er mikilvægt að við skoðum allar leiðir til þess að tekjur af landi skili sér til þeirra sem vilja búa í dreifbýlinu og til dreifbýlissamfélaganna. Það mál sem nú liggur fyrir og er á leiðinni til atvinnuveganefndar er, held ég, mikilvægt tækifæri fyrir þá nefnd til að skoða bæði innihald málsins út frá öllum hliðum en nánar tiltekið hvernig verði búið þannig um að tekjurnar skili sér til samfélagsins í kring.

Þetta hefur auðvitað verið gert með lögum áður, þegar það var tryggt að hlunnindi yrðu ekki aðskilin frá ábúð. Mikilvægt er að skoða hvernig er hægt að tryggja það enn frekar því að mikilvægt er að tekjurnar og verðmætin fylgi jörðunum og tryggi samfellda innkomu inn í samfélögin, ekki eina háa greiðslu í eitt skipti.

Minnihlutaverndin er akkúrat til þess fallin að tryggja rétt allra félaga í veiðifélögunum sem snýst oft um að tryggja réttindi þeirra sem næst búa, sem búa raunverulega í samfélaginu. Auðvitað er, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, nauðsynlegt að skoða aðrar leiðir að markmiðinu í vinnunni ítarlega en eins og ég sé þetta núna sýnist mér þetta vera skynsamleg leið. Eins vil ég ítreka hér undir lokin að ég álít þetta mikilvægt tækifæri fyrir nefndina og vil hvetja hana til þess að ræða lögin um lax- og silungsveiði í heild út frá þeim upphaflega tilgangi að styðja við búskap í strjálbýli.