154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þyrlupallur á Heimaey.

75. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um þyrlupall á Heimaey. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Óli Björn Kárason, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að gera nú þegar ráðstafanir til að Isavia geti hannað og staðsett þyrlupall á Heimaey til að auka enn frekar öryggi í sjúkra- og neyðarflugi til Vestmannaeyja.“

Eftirfarandi greinargerð fylgir. Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 149., 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi og er nú lögð fram að nýju óbreytt.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa farið tugi ferða á undanförnum árum til Vestmannaeyja í sjúkraflug þegar engin önnur leið er fær milli lands og Eyja. Sjúkraflugferðir til Vestmannaeyja eru um 100 á ári en flugið er mörgum annmörkum háð. Aðkallandi sjúkraflug sem Landhelgisgæslan hefur farið í síðastliðin ár skipta tugum og hafa þyrlur Landhelgisgæslunnar oft þurft að lenda við afar erfiðar aðstæður þegar flugvöllurinn er lokaður allri umferð. Í slíkum neyðartilvikum þarf að notast við Hamarsveg, vestan Dverghamars, sem lendingarstað. Að þurfa að lenda björgunarþyrlu á vegi með almennri umferð í slæmu skyggni getur ekki talist örugg aðferð til langframa. Ekkert merkt svæði eða lendingarpallur er í Vestmannaeyjum í slíkum tilfellum og mikilvægt að auka öryggi íbúanna með gerð þyrlupalls. Staðsetningu þyrlupalls þarf að ákveða í samráði við Isavia í Vestmannaeyjum, yfirstjórn sjúkraflutninga HSU, Flugdeild Landhelgisgæslu Íslands og skipulagsyfirvöld í Vestmannaeyjum. Að útbúa þyrlupall opnar á möguleika að gera svokallað GPS (RNAV) aðflug að pallinum, jafnvel stutt EGNOS-leiðréttingamerki í framtíðinni, sem myndi auka á öryggi flugs.

Það tekur um það bil tvær klukkustundir að undirbúa og koma sjúkraflugvél til Eyja frá því að útkall kemur og þar til vélin lendir í Eyjum. Staðsetning sjúkraflugs á Akureyri er nánast lengsta mögulega flugleið frá landsbyggðinni til Eyja. Veður getur breyst eins og hendi sé veifað í Vestmannaeyjum og það gerist að sjúkraflugvél sem lögð er af stað til Eyja á ekki möguleika á að lenda þar. Þar getur verið mjög misvindasamt, skýjahæð undir 500 fetum og oft krefjandi aðstæður sem sjúkraflugvél ræður ekki við. Við þær aðstæður þarf að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja sjúka eða slasaða til Eyja.

Í Vestmannaeyjum búa samkvæmt tölum Hagstofu Íslands 4.523 manns við áhættusækið atvinnulíf og skerta sjúkrahúsþjónustu í alvarlegustu tilfellum. Fæðingarþjónusta er rekin með ljósmæðravakt, en ekki er rekin sérfræðiþjónusta lækna allan sólarhringinn. Sjúkraflug er því mikilvægur öryggisventill sem alls ekki má bregðast þegar neyðarástand skapast í Eyjum. Fyrirséð er að þyrla verður áfram mikilvægt öryggistæki fyrir sjúkraflug frá Eyjum þegar flugvöllurinn er lokaður, Herjólfur ekki í siglingum og Landeyjahöfn jafnvel lokuð. Það er því mikilvægt að búa þannig að þyrlufluginu að besta mögulega aðstaða verði gerð sem fyrst og nýtist þegar flugvöllurinn í Eyjum lokast vegna veðurfarsaðstæðna sem enginn ræður við eins og gerist iðulega fyrirvaralítið í Eyjum. Einnig þarf vel skilgreind þjónusta að fylgja þyrlupallinum eins og sjálfvirk veðurstöð, ljósabúnaður og blindaðflug.

Þá má auðvitað bæta því við, virðulegi forseti, að sjúkraþyrla sem fyrirhuguð er á Suðurlandi þarf líka góða aðstöðu og lendingaraðstöðu til að hægt sé að bregðast við og nota við hvers konar aðstæður. Það er einnig náttúruvá sem hvílir nú yfir Suðurlandi og við þurfum að útbúa okkur sem best til að geta tryggt öryggi íbúa í Eyjum.

Þetta er í sjötta skipti sem ég flyt þessa þingsályktunartillögu. Það vekur athygli mína að svona tiltölulega lítið mál á mælikvarða þingsins en stórt mál varðandi öryggi og sjúkraflug til Eyja skuli ekki ná í gegn. Ég vona að á þessu þingi fái málið farsæla afgreiðslu og við náum að lenda því farsællega í höfn fyrir Eyjamenn og bætt öryggi þeirra.