137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

stöðugleikasáttmáli -- Icesave -- heilsutengd ferðaþjónusta -- raforkuverð til garðyrkjubænda.

[13:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hafði hugsað mér að ræða eilítið meira um Icesave-samninginn en get ekki orða bundist eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og verð taka þátt í umræðunni um stöðugleikasáttmálann. Þegar menn skoða þann sáttmála sjá þeir að Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa sýnt mikla ábyrgðartilfinningu og ábyrgð með því að ná saman um kaupgjaldsmálin.

Þegar menn líta síðan á það sem ríkisstjórnin leggur fram verður fátt um fína drætti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Bjarna Benediktssyni að það er merkilegt hversu langt aðilar vinnumarkaðarins voru tilbúnir að ganga til að láta þetta samkomulag verða að veruleika og sýnir auðvitað enn og aftur þá miklu ábyrgðartilfinningu sem þeir hafa.

En það sem lagt er til grundvallar og hægt er að festa hönd á í þessu samkomulagi hvað ríkisvaldið varðar er það hversu mikla skatta það ætlar að innheimta. Síðan er talað um vaxtalækkanir, það er auðvitað á forræði Seðlabankans. Það er ekki annað að sjá af ummælum hæstv. forsætisráðherra í Morgunblaðinu í dag en að menn eigi ekki von á því að vaxtalækkanir verði alveg á næstunni.

Auðvitað fögnum við sjálfstæðismenn þessu samkomulagi, það er mikilvægt skref. En enn og aftur stöndum við frammi fyrir því að ríkisstjórnin gerir ekki það sem mestu máli skiptir, þ.e. að sýna á spil sín, sýna hvernig hún ætlar að ná þeim árangri sem verður að ná í ríkisfjármálum, það er lykilatriði. Það er því útúrsnúningur hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að við sjálfstæðismenn séum á einhverjum hlaupum undan ábyrgð og viljum ekki taka þátt í samkomulaginu. En við gerum auðvitað þá kröfu á ríkisstjórnina að hún standi sig betur. Það er eðlilegt að við gerum þá kröfu (Forseti hringir.) að það komi betur fram hvaða fyrirætlanir ríkisstjórnin hefur og hvernig hún hyggst ná þessum árangri. Skattaleiðin mun ekki leysa þann vanda sem uppi er. (Forseti hringir.) Menn skatta sig ekki út úr kreppu.