140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi.

[10:17]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Forsenda þess að við höfum gengið frá því að ráðist verði í Vaðlaheiðargöng var sú að það náðist góð samstaða með heimamönnum og sveitarstjórnarmönnum og öllum aðilum um það að fjármögnun á þessu verkefni yrði tekin í gegnum veggjöld.

Ef sama samstaða hefði náðst varðandi þær stórframkvæmdir sem fyrirhugaðar voru á suðvesturhorninu er ég sannfærð um að við værum komin eitthvað á veg með þær framkvæmdir og búin að taka ákvarðanir um þær. En ekki náðist samstaða um að framkvæmdir á suðvesturhorninu yrðu fjármagnaðar með veggjöldum og er það ástæða þess að þær hafa ekki farið af stað, sem mér þykir mjög miður vegna þess að allir eru sammála um mikilvægi þeirra og þá þjóðhagslega hagsmuni sem þar liggja að baki. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að þessar framkvæmdir eru gríðarlega mikilvægar, ekki síst á þessum tíma fyrir öryggi vegfarenda o.s.frv. og vegna þess að við þurfum sárlega á framkvæmdum að halda til að auka allan hagvöxt. En þetta er staðan. Um var að ræða, ef ég man rétt, 35–40 milljarða kr. framkvæmdir sem hefðu skipt verulegu máli til að auka hér hagvöxt.

Ég vildi gjarnan að þeir sem að því máli komu á sínum tíma og gátu ekki náð samstöðu um það mundu reyna til þrautar aftur og setjast yfir þetta verkefni og athuga hvort ekki væri hægt að ná samstöðu um það; svo mikilvægt tel ég málið vera.