145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[14:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég var að vona að þessi umræða yrði málefnaleg og ég verð að hrósa nokkrum hv. þingmönnum fyrir að þeir nálguðust þetta viðfangsefni út frá því sem það er, að reyna að finna sameiginlega lausn eða komast að sameiginlegum skilningi. Upphrópanir hv. þingmanns, endalausu frasarnir um það að allir nema hann séu að ganga erinda einhverra eru fullkomlega óþolandi og (ÖJ: … almennings.) óboðlegur málflutningur, ef ég mætti klára. Ég frábið mér, virðulegur forseti, slíkan málflutning.

Ég fór nákvæmlega yfir það og útskýrði af hverju það er ekki sami skilningurinn, þetta er lögfræðilegt álitamál sem hv. þingmaður kallar hér fram í að sé ólögmæt gjaldtaka. Það er ekki lögfræðilegur samhljómur um það. (ÖJ: En af hverju læturðu ekki reyna á þetta fyrir dómstólum?) Hv. þingmaður spyr mig af hverju ég fari ekki í lögbann, af hverju ég láti ekki reyna á þetta fyrir dómstólum. Ég vísa þeirri spurningu aftur til þingmannsins. (ÖJ: Af hverju …?) Það hefur enginn farið í málsókn, ég hvet hv. þingmann til að gera það vegna þess að það eru dómstólar sem verða að kveða upp úr með þetta. (ÖJ: Lögreglan …) (Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Hv. þingmaður. Vinsamlegast ekki eiga orðaskipti við ræðumanninn. (ÖJ: Ráðherrann er að tala við mig.))

Ég vil að hv. þingmaður skilji nákvæmlega það sem ég var að segja hér. Um þetta ríkir lögfræðilegur ágreiningur, niðurstaða hefur ekki verið leidd fram af dómstólum og við það situr. Ég er ekki að ganga erinda eins eða neins, málstaður minn er að fara hér að lögum. (Forseti hringir.) Það er sá málstaður sem ég fer eftir og það er sá málstaður sem ég mun fylgja í þessu. (Forseti hringir.) Ég frábið mér enn og aftur þessar dylgjur frá hv. þingmanni. (Gripið fram í.) — Þetta er eins mikið „low pro“ og hægt er að vera. (ÖJ: Talaðu íslensku.)