154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að þetta sé komið aftur af stað. Ég held að fólk bíði í ofvæni eftir að þetta komist loks út úr ráðuneytinu vegna þess að fólk gerir mjög lítið við vinnuna á meðan hún er föst þarna inni. Ég vil bara vekja athygli á því í þessu samhengi, eins og ég nefndi hérna áðan og þreytist ekki á að nefna, að á bak við þetta þarf að vera fjármagn, þessu þarf að fylgja fjármagn. Það eru vandræði í dag á Landspítalanum út af sérnámi sem þaðan er sinnt. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við höfum þetta sérnám hér á landi, ekki bara fyrir þá sem við náum að mennta í þessu námi heldur er þetta líka auðvitað vinnuafl og þekkingarviðbót á þessum stöðum. Hið sama munum við sjá í heimilislækningum og héraðslækningum, þarna mun þá flykkjast að fólk sem mun setjast að á ákveðnum stöðum á meðan það er í sérnáminu og taka þátt í samfélaginu í staðinn fyrir að vera mögulega í eins konar héraðslækningum í Svíþjóð eða í Danmörku eða í Noregi og vera til stuðnings samfélögunum þar. Það ætti að vera hvatning til okkar hvernig sum af löndunum í kringum okkur gera þetta. (Forseti hringir.) Kannski er hér kominn flötur til frekara samstarfs og ánægjulegt að heyra að fólk er bara ánægt með þessa tillögu.