136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

stimpilgjald.

151. mál
[14:46]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Frumvarpið er til mikilla bóta þótt það sé nú til komið vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að öll stimpilgjöld af viðskiptum sem tengjast húsnæðiskaupum verði felld niður. Hér er lagt til að þau falli niður tímabundið til 1. janúar 2009. Ég tel að það sé of skammur tími, hæstv. forseti.

Ég vil vekja athygli á því að Alþingi starfar ekki í upphafi árs, kemur varla saman 1. janúar, þannig að tímasetningin hefði alla vega átt að vera 1. febrúar svo Alþingi væri komið saman áður en lögin féllu úr gildi til að meta stöðuna sem þá væri uppi og framlengja lögin ef æskilegt væri. Ég tel að á næstu mánuðum verði fólk fyrir miklum erfiðleikum vegna skuldastöðu sinnar og þurfi þá m.a. að gera breytingar á lánafyrirkomulagi sínu. Ég bendi því á, hæstv. forseti, að lokatímasetning lagasetningarinnar er afar óheppileg þar sem Alþingi verður ekki starfandi þá og ef menn sæju nauðsyn til að bregðast við áfram yrði væntanlega einhver dauður tími á milli þess sem lögin féllu úr gildi og þar til ný yrðu sett. Klárt þarf að vera að Alþingi sé starfandi ef framlengja þarf lögin svo ekki þurfi að grípa til bráðabirgðalaga.