140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

fjölgun framhaldsskóla.

227. mál
[18:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil nota tækifærið til að greina frá því að nú er unnið að því samkvæmt nýjum framhaldsskólalögum að fara yfir tillögur framhaldsskólanna um ýmsar nýjar námsbrautir þannig að því sé til haga haldið. Við gætum því átt eftir að sjá fjölgun á brautum sem hægt er að taka á þremur árum á allra næstu missirum. Mikil gróska hefur verið hjá skólunum við mótun nýrra námsbrauta og ég vil halda því til haga hér í byrjun.

Hvað varðar svæðaskiptinguna og það að 45% plássa eru frátekin fyrir nemendur í hverfum í kringum skólana liggur fyrir að til þessa var gripið eftir að fræðsluskyldan var sett á. Við horfum á þessa gríðarlegu ásókn í skólana en líka á skyldu stjórnvalda til að koma nemendum fyrir. Við hv. þingmaður höfum átt orðaskipti um þetta þannig að ég held að ég leggi í svari mínu meiri áherslu á fyrirspurn hv. þingmanns um fjölgun framhaldsskóla.

Það eru starfandi 32 almennir framhaldsskólar á landinu, 15 á höfuðborgarsvæðinu, 17 skólar á alls 16 stöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og hv. þingmaður nefndi eru bekkjarskólar þar í miklum minni hluta. Ætli þeir séu ekki fimm, þó líklega sex. Flestir skólanna bjóða upp á bæði bóklegt nám og starfstengt.

Það liggur fyrir að ekki búa allir framhaldsskólar við rúman kost í húsnæðismálum. Hins vegar höfum við að sjálfsögðu unnið að byggingarmálum framhaldsskóla að undanförnu. Ég nefni sérstaklega sem dæmi að Kvennaskólinn fékk ákveðna lausn þegar húsnæði Miðbæjarskólans var tekið undir starfsemi Kvennaskólans í samkomulagi ríkis og borgar. Það hefur gerbreytt aðstöðu Kvennaskólans, þar sem var langþrengst um nemendur og kennara, að fá þetta gamla, virðulega hús undir starfsemi sína ásamt höfuðstöðvum sínum þar sem skólinn er fyrir. Verið er að byggja framhaldsskóla í Mosfellsbæ, hann hefur verið til húsa í eldra húsnæði en nú er verið að byggja glæsilega nýbyggingu fyrir hann. Framkvæmdir eru fyrirhugaðar við Menntaskólann við Sund, auk þess sem fleiri viðbyggingar og stækkanir eru á teikniborðinu sem eru hins vegar ekki komnar svo langt að búið sé að áætla fjármagn til þeirra. Ég get nefnt sem dæmi auðvitað Menntaskólann í Reykjavík þar sem lengi hefur verið unnið að hugmyndum um stækkun og breytingar.

Ef við skoðum hvernig lýðfræðin lítur út, ef við horfum til næstu sjö, átta ára, þá lítur út fyrir að brautskráðum nemendum úr grunnskólum muni fækka nokkuð. Við höfum því ekki sett nýja framhaldsskóla á teikniborðið núna í ljósi hinnar þröngu stöðu sem er í ríkisfjármálum. Það má segja að við höfum átt nóg með að standa við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið boðaðar eða þegar er unnið að. Við höfum fremur unnið að því að bæta núverandi aðstöðu og húsakost. Það er engin launung á því.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að bent hefur verið á að bæði í Hafnarfirði og Kópavogi væri rými fyrir nýjan skóla. Til framtíðar litið erum við líka með húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem gæti nýst undir framhaldsskóla. Ég nefni sérstaklega að ef byggt verður yfir menntavísindasvið Háskóla Íslands er gamli Kennaraháskólinn auðvitað tilvalið skólahúsnæði.

Þegar við ræðum þetta finnst mér mikilvægt að við veltum fyrir okkur, eins og hv. þingmaður nefndi, hvernig nýr framhaldsskóli ætti að vera ef hann yrði byggður eða tekinn í notkun á höfuðborgarsvæðinu. Á það að vera bekkjarskóli, eins og hv. þingmaður nefndi? Mér finnst ekki útilokað að við skoðum það í ljósi þess að aðsókn er oft mikil í bekkjarskóla. Við getum velt fyrir okkur hvort það er af því að þeir eru bekkjarskólar eða vegna þess að flestir bekkjarskólanna eru gamlir skólar með rótgróna sögu og hefðir og hafa kannski aðdráttarafl af þeim sökum en ekki út af bekkjarkerfinu. Það er nokkuð sem við þyrftum að greina. Ég velti líka fyrir mér hvort við ættum að horfa til skóla sem væru á einhvern hátt með sérhæfðara námsframboð og vísa í hugmyndir sem hv. þingmaður þekkir vel um listmenntaskóla, svo dæmi sé tekið. Þetta er nokkuð sem ég held að við ættum að velta fyrir okkur, ekki bara hvort þörf sé á nýjum framhaldsskólum heldur líka hvernig nýjum framhaldsskólum. Ég varpa þeirri spurningu fram því ég held að það sé nokkuð sem þingmenn, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu ef við erum að horfa á fjölgun hér, ættu að velta fyrir sér og taka afstöðu til.