144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.

262. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það hlýtur að vera meginatriðið að aðgerðin sem ráðist verður í til að losa höftin hafi innbyggt tillit til þess að fjöldi lána á Íslandi er verðtryggður. Aðgerðin sjálf getur verið ein risastór mótvægisaðgerð einmitt í þessum skilningi.

Annars finnst mér óljóst hvort fyrirspyrjandi, málshefjandi, er að kalla eftir svari við því hvort við höfum á prjónunum einhver áform um að aftengja verðtrygginguna, eitthvað slíkt. Ég átta mig ekki á því hvað það er sem nákvæmlega er verið að spyrja út í. Ég lít þannig á að það sé meginatriði málsins að aðgerðin sé þannig sniðin að hún verji hagkerfið þegar hún kemur til framkvæmda.

Hér kom hv. þm. Jón Þór Ólafsson og spurði út í áhrifin af kröfu á Íbúðalánasjóð. Ég get ekki svarað þeirri spurningu nákvæmlega, en það er ljóst að það yrði talsvert högg í íslenskum krónum á íslenska ríkið ef Íbúðalánasjóður lenti í verulegum vandræðum vegna þessa máls sem vísað var til. Ef lán sem sjóðurinn hefur veitt reynast ólögmæt þá er það bara augljóst að það yrði mikið högg fyrir sjóðinn og þar með ríkissjóð og ekki gott að spá nákvæmlega fyrir um áhrif á gengi krónunnar.

Ég vakt athygli á því hér áðan að vandinn sem við stöndum frammi fyrir og er ástæða haftanna er greiðslujafnaðarvandi. Það er ekki undirliggjandi skuldavandi, en vissulega er skuldastaða ríkisins alvarleg.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvað eigi að gera við Landsbankabréfið. Það er bara í vinnslu. Annars vegar er verið að óska eftir, ekki satt, undanþágu fyrir endurnýjað skuldabréf og hins vegar undanþágu fyrir útgreiðslu (Forseti hringir.) til kröfuhafa. Því miður er erfitt að svara þeim fjölmörgu spurningum sem hér komu (Forseti hringir.) fram. Málið er bara í traustum farvegi. (Forseti hringir.) Það er enginn að reyna að slá sig til riddara eða leika einhvern leik með því (Forseti hringir.) að tala um að hér sé (Forseti hringir.) vinnan í góðum farvegi.