144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rannsóknir á fiskstofnum á miðsævisteppinu milli Íslands og Grænlands.

201. mál
[17:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér, eins og svo oft áður, flytur hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrirspurn töluvert mikið til framtíðar þar sem hann spyr um rannsóknir á þeim 50–60 fiskstofnum sem finnast á hinu svokallaða miðsævisteppi milli Íslands og Grænlands og nýta mætti í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega mikilvæg fyrirspurn, og líka það sem ráðherra færði hér fram til okkar til umræðu fyrir okkur Íslendinga, vegna þess að við vitum að þeir stofnar og það sem þar er að finna mun verða á komandi árum og í framtíðinni mjög mikilvægt fyrir okkur að sækja í. Við höfum séð það á svo mörgum sviðum hvað við Íslendingar getum gert í þessum efnum. En það þarf peninga til, það þarf peninga til rannsókna. Og núna meðan staðan hjá Hafrannsóknastofnun er eins og hún er, sem hefur ekki peninga til að stunda brýnustu rannsóknir þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra — vegna þess að það var alltaf hugmyndin að hluti af veiðigjaldinu mundi renna þangað í rannsóknir eins og hér hafa verið teknar til umræðu (Forseti hringir.) af hv. þingmanni: Stendur til að hæstv. ráðherra leggi til að (Forseti hringir.) Hafrannsóknastofnun fái til rannsókna (Forseti hringir.) einhvern hluta af veiðigjaldinu í þetta verk?