144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

fráveitumál.

232. mál
[17:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu fráveitumála. Fyrirspurnin tekur útgangspunkt í því að það hefur því miður ansi lítið gerst að því er virðist í þeim efnum núna síðari árin. Sú þróun sem var í gangi beggja vegna aldamótanna og eitthvað inn á þessa öld virðist að mestu leyti hafa staðnæmst þannig að maður verður lítið var við það að sveitarfélög séu að ráðast í úrbætur á því sviði. Það er svo sem að ýmsu leyti skiljanlegt. Í fyrsta lagi hefur fjárhagur sveitarfélaga verið erfiður, margra hverra, þessi síðustu ár en ég óttast að ástæða sé til að ætla að það muni áfram gerast allt of lítið í þeim efnum. Úrbætur ganga hægt nema eitthvað nýtt komi til.

Það er meðal annars vegna þess að nú búa sveitarfélögin við nýjar fjármálareglur sem setja þeim nokkuð þröngar skorður hvað varðar skuldsetningu og að ráðast í kostnaðarsamar framkvæmdir af þessu tagi. Í öðru lagi liggur nokkuð ljóst fyrir að mörg dýrustu verkefnin hafa beðið og menn réðust í úrbætur víða þar sem þær voru einfaldari og ódýrari, en í öðrum tilvikum, bæði innan og milli sveitarfélaga, hafa oft dýrustu áfangarnir setið eftir.

Ég held að sérstök ástæða sé til að horfa til sveitarfélaga inn til landsins og hafa þar af leiðandi ekki kost á grófari hreinsun með aðgang að hafi og svo þeirra svæða sem eru á náttúruverndarsvæðum eða í þjóðgörðum og eru fjölsótt af ferðamönnum, einfaldlega vegna þess að það gefur augaleið að með stórauknum fjölda ferðamanna vex álagið hratt á lífríki þeirra svæða ef fráveitumálin eru ekki í fullnægjandi lagi.

Við eigum skuldbindingar í þessum efnum, bæði við okkur sjálf sem gæslumenn landsins og líka að hluta til alþjóðlega. Má nefna í því sambandi aðila eins og UNESCO og skuldbindingar okkar samkvæmt Ramsar-sáttmálanum og fleira í þessum efnum. Það er ekki alveg bara einkamál Íslendinga hvernig að þessum málum er staðið þó að auðvitað viljum við fyrst og fremst sjálfra okkar vegna hafa þetta í lagi.

Ég hef því spurt hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra eftirfarandi spurninga í þessum efnum:

1. Hvert er mat ráðherra á stöðu fráveitumála á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum í byggð þar sem bæði er búseta og ferðamannastraumur, svo sem við Mývatn og Laxá og umhverfis Þingvallavatn?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ríkið komi að framkvæmdum við fráveitur á náttúruverndarsvæðum með sérstökum fjárveitingum í því skyni að hraða úrbótum?

3. Hvernig metur ráðherra stöðu þeirra sveitarfélaga sem liggja inn til landsins og eiga ekki aðgang að sjó með tilliti til fráveitumála?

4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að tekið verði upp að nýju það fyrirkomulag að ríkið endurgreiði sveitarfélögum útlagðan virðisaukaskatt (Forseti hringir.) vegna fráveituframkvæmda?