144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

beinagrind steypireyðar.

223. mál
[18:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði að taka aðeins þátt í þessari umræðu. Það er ánægjulegt í sjálfu sér að heyra að hæstv. ráðherra hefur haft eitthvert samráð um þetta við hina ýmsu aðila. Auðvitað er búið að tilkynna formlega á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins en samkvæmt fréttum virðist það ekki hafa verið tilkynnt á þann hátt að um væri að ræða tímabundna varðveislu.

Því spyr maður: Það á að byggja stórt húsnæði undir þessa beinagrind. Síðan er ætlast til þess að Náttúruminjasafnið sjái um þetta til framtíðar. Er það ekki illa farið með fé að ætla að byggja undir beinagrindina og gera ráðstafanir til að hægt sé að hafa hana, gera afsteypu af henni, á öðrum hvorum staðnum? Þetta er heilmikill kostnaður sem þarf að leggja í. Af hverju í ósköpunum, þrátt fyrir að Náttúruminjasafnið eigi að hafa yfir þessu að ráða, má ekki byggja safnið upp á Húsavík þannig að það hafi yfir þessu að ráða?