146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[16:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ýmsar leiðir færar, m.a. með því að auka fjármagn til dómstólanna til þess að þeir geti sinnt símenntun, endurmenntun, farið á námskeið erlendis, skoðað hvernig dómvarsla er þar o.s.frv. Ég sé einnig fyrir mér að við förum að tillögum GRECO-nefndar gegn spillingu um hvernig megi bæta dómshætti okkar. Ég sé fyrir mér að skýrara ákvæði verði sett um hvernig dómurum er gert að rökstyðja dóma sína af því að mín reynsla er sú að mér hefur þótt allt of oft og allt of mikið skorta upp á raunverulegan og skiljanlegan rökstuðning hjá dómstólum á Íslandi.

Hvað varðar nákvæmlega þau lög sem eru til umræðu hér þá held ég að sé mjög mikilvægt að við endurskoðum samsetningu þeirra aðila sem fá að tilnefna í valnefnd um dómara einfaldlega til þess að koma í veg fyrir klíkuskap og vinavæðingu á þessum mikilvægu embættum í samfélagi okkar. Það hefur líka verið mikilvægur þáttur í að efla traust. Það er ekki verið að segja að þeir aðilar sem skipa í þessar valnefndir eða þeir aðilar sem sitja í henni séu á einhvern hátt spilltir eða vilji ekki vel. En réttarríkið felur líka svo mikið í sér ásýndina og hvernig það horfir við fólki sem horfir á það utan frá og hver skilningur þeirra er í raun og veru og merking út frá því.

Eins og staðan er núna þá er frekar þröngur hópur sem hefur það hlutverk að skipa dómara. Það er frekar þröngur hópur sem ræður því hvernig dómstólunum er stjórnað. Ef okkur er alvara með að auka traust almennings á dómstólum þá þurfum við að taka til gagngerrar endurskoðunar hvernig við skipum dómara og hverjir það eru sem fá að sinna þessu mikilvæga hlutverki og hvaða sjónarmið það eru sem við tökum til greina þegar við skipum í þessi mikilvægu embætti.