149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

staðan gagnvart Bretlandi vegna Brexit.

[15:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það eru rúmir fjórir mánuðir þangað til Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu, 29. mars. Frá þeim tíma og fram til loka árs 2020 er biðtími sem Bretar geta m.a. nýtt til að gera fríverslunarsamninga við önnur lönd. Slíkir fríverslunarsamningar geta þó aldrei tekið gildi fyrr en 1. janúar 2021.

Bretland er eitt okkar mikilvægasta viðskiptaland. 10% af heildarvöruútflutningi okkar fara til Bretlands, 15,5% af sjávarafurðum og hlutfallið er í raun enn hærra þegar við förum yfir í þorskinn, tæplega 20%. Þetta eru um 50 milljarðar á ári í vöruútflutning, en þjónustutekjur okkar frá Bretum eru líka gríðarlegar, um 80 milljarðar. Það eru tæplega 12% af útflutningstekjum okkar á þjónustu í heild. Því skiptir okkur gríðarlega miklu máli að okkur takist að tryggja að gerður verði fríverslunarsamningur við Bretland sem tryggi hagsmuni, ekki bara okkar á Bretlandi heldur líka breskra aðila sem eiga viðskipti við okkur á Íslandi.

Því vil ég inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hver staðan sé í þeim viðræðum eða þreifingum sem átt hafa sér stað við bresk stjórnvöld, hvaða (Forseti hringir.) tímaramma hann sjái fyrir sér og hvort ekki sé von til þess að fríverslunarsamningur taki gildi 1. janúar 2021.