151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til laga um tekjufallsstyrkina var ekki verið að nota mörg þrep heldur fyrst og fremst byggt á einfaldari reglum. En það var þingið sem tók sig til og þróaði þrepið frekar. Það breytir því svo sem ekki að það er alveg gild spurning hvort við getum sætt okkur við jaðaráhrifin. Hérna verð ég að benda á að sá aðili sem ekki uppfyllir að fullu skilyrðin, þar með talið um umfang tekjufallsins, getur engu að síður treyst á ýmis önnur úrræði. Það er auðvitað spurning sem við getum ekki hlaupið frá, sem þarf að taka afstöðu til, hvort sem menn vilja línulegan stuðning eða þrepaskiptan, við hvaða mark eigi að hætta stuðningi. Hvenær hefur tekjufallið verið nægilega lítið til að það kalli ekki á opinber afskipti af rekstrinum eða opinberan stuðning? Við 60%, þ.e. minna en 60%, þá eru fyrirtæki, segjum með 50%, þó að halda helmingi tekna sinna og hafa þá haft bæði fullan rétt til þess að nýta eftir atvikum lokunarstyrki, eftir atvikum hlutabætur, hafa sömuleiðis mögulega getað nýtt sér greiðslufresti á opinberum gjöldum, eftir atvikum fengið slíka fyrirgreiðslu í banka. Hafi þeir sagt upp starfsmönnum hafa þeir að öllum líkindum átt rétt á að fá stuðning til að gera upp uppsagnarfrestinn o.s.frv. Þannig að það er ekki um það að ræða, sem mér fannst aðeins skína í í máli hv. þingmanns, að þeir sem ekki uppfylla þetta tiltekna skilyrði séu alfarið úti í kuldanum. (Forseti hringir.) En spurning er við hvaða tekjufall hv. þingmaður myndi vilja að línulegi stuðningurinn myndi hverfa.