138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

krafa innlánstryggingarsjóðs.

[15:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hlýtur samt að vera betra að Landsbankinn geti borgað sem mest. (PHB: Í krónutölu?) Ég held að hv. þingmaður hljóti að verða að viðurkenna það. (PHB: Nei.) Ef raunverulegt verðmæti eignasafnsins reynist meira óháð gengi krónunnar þá hlýtur það að vera gott. (Gripið fram í.) Auðvitað skiljum við það, hv. þingmaður, að það er óvissa um hvernig gengi íslensku krónunnar þróast en hún er mjög lágt skráð og ber eiginlega öllum saman um að það eru allar forsendur til þess að gengið styrkist frekar (Gripið fram í.) en veikist svona til lengri tíma litið. Það getur vel verið að ekki verði um verulega breytingu þar að ræða en það þarf eitthvað mikið til, við þurfum að verða fyrir miklum viðbótaráföllum, Íslendingar sem þjóðarbú, ef til lengri tíma litið eru ekki frekar forsendur fyrir að gengið styrkist en veikist, vegna þess að það er í algeru sögulegu lágmarki. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að nálgast þetta út frá neinum öðrum forsendum en þessum, hv. þingmaður. Það er ekki hægt að kaupa sér (Forseti hringir.) einhverja líftryggingu inn í framtíðina fyrir svona hlutum, það hlýtur markaðssinnaður einstaklingur eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal að vita allra manna best. (Gripið fram í.)