138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[20:56]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S):

Frú forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er lögð fram er flutt af öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, ásamt nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins, þeim hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni. Tildrög þessarar þingsályktunartillögu eru þau að sjávarútvegsráðherra skipaði með bréfi þann 3. júní sl. starfshóp sem ætti að hafa það hlutverk að, eins og fram kemur í bréfi ráðherrans, með leyfi forseta, „vinna nauðsynlegar greiningar og setj[a] að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða“. Þetta snýr að endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni.

Á sama tíma liggur fyrir stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um endurskoðun laga um fiskveiðar, með leyfi forseta:

,,6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Hér er mjög skýrt kveðið að orði. Hér er um að ræða fullkomna og algjöra stefnubreytingu frá því fyrirkomulagi sem við höfum haft um fiskveiðar á Íslandsmiðum undanfarna áratugi. Þess vegna skýtur nokkuð skökku við að á sama tíma og þessi yfirlýsing liggur fyrir með þessum hætti, sem ljóst má vera að ekki nokkur sátt mun nokkurn tímann nást um, skuli vera stofnaður starfshópur sem á að ná fram slíkri sátt og á að leggja grunn að endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að það sé nauðsynlegt að fara í gegnum slíka endurskoðun. Ýmis þau mál sem uppi eru í okkar fiskveiðistjórnarkerfi þurfa nánari skoðunar við. Vek ég þar sérstaklega athygli ráðherrans á samspili þess aflamarkskerfis sem við búum við og fiskveiðiráðgjafar, þ.e. ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar sem ég tel að þurfi að skoða mjög ítarlega. Reynslan af því hefur að mínu mati ekki verið góð. Jafnframt eru ýmis önnur atriði sem snúa að fiskveiðistjórnarkerfinu, aflamarkskerfinu, sem ég tel að þurfi að skoða, m.a. hvað varðar fiskverndarsjónarmið, hvar og hvenær er veitt o.s.frv. Allt eru þetta atriði sem við þurfum að ræða og því miður hafa þau fallið nokkuð í skuggann af þeim deilum sem hafa verið um grundvöll sjálfs kerfisins, þ.e. hvar nýtingarrétturinn liggur.

Þess vegna er það tillaga okkar hv. flutningsmanna að ríkisstjórnin kalli umsvifalaust til baka þessa stóru yfirlýsingu sína um fyrningu aflaheimilda og láti þá nefnd sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað það eftir að móta þessar tillögur þannig að einhver sátt náist um nauðsynlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Síðan er hitt alveg sérstakt mál og mjög alvarlegt að með því að þessi yfirlýsing er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er búið að skapa alveg gríðarlega óvissu í sjávarútveginum. Þeir sem þar starfa búa nú við það að þeir geta átt von á því að aflaheimildirnar verði fyrndar á næstu 20 árum, með öðrum orðum að hið opinbera eða ríkisvaldið geri upptækar þessar heimildir sem langstærstur hluturinn af útgerðarmönnum á Íslandi í dag hefur fjárfest í fyrir fé sem útgerðirnar hafa annaðhvort fengið að láni eða tekið úr eigin rekstri.

Þetta er mjög alvarlegt við þær aðstæður sem eru uppi í íslensku atvinnulífi þessa dagana og fyrirsjáanlegt er að verði hér næstu missirin. Það er alvarlegt að það sé uppi jafnmikil grundvallaróvissa í íslenskum sjávarútvegi og þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar kallar fram. Þeir sem þekkja til í greininni og hafa rætt við forustumenn fyrirtækja og þá sem þarna starfa hafa auðvitað heyrt hvaða afleiðingar þessi óvissa hefur. Ein erfiðasta og versta afleiðingin fyrir íslenskt þjóðarbú er að það dregur úr fjárfestingum sem gerir það að verkum að menn halda að sér höndum og nýta ekki þá uppsveiflu sem nú er í greininni, bæði vegna þess að verð á mörkuðum hefur farið hækkandi og vegna þess að gengið er mjög hagstætt fyrir þessa starfsemi. Það er alvarlegt mál, frú forseti. Þess vegna eru í sjálfu sér alveg sérstök rök fyrir ríkisstjórnina til að draga þetta til baka og beina málinu inn í þann farveg sem upp hefur verið settur af hæstv. sjávarútvegsráðherra sem ég tel skynsamlegan farveg, að það fari inn í þá nefnd sem hann setti af stað með bréfi þann 3. júní sl.

Í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um fiskveiðistjórnarkerfið og sjávarútveginn almennt hefur gjarnan verið bent á, og menn hafa þá jafnan haft um það stór orð, að skuldir sjávarútvegsins séu miklar. Það er alveg hárrétt. Skuldir sjávarútvegsins eru miklar. Það er þó ofmælt eins og líka hefur verið haldið fram í opinberri umræðu hér á Íslandi að orsök þess efnahagshruns sem við stöndum nú frammi fyrir hafi verið vegna skuldsetningar sjávarútvegsins. Það er mjög ofmælt. Það er rétt að líta til þess að árið 2001 voru skuldir sjávarútvegsins 9,18% af heildarskuldum íslensks atvinnulífs. Árið 2007 var þetta hlutfall 2,07%. Það að halda því fram að skuldir sjávarútvegsins hafi komið íslenskri þjóð á kaldan klaka er auðvitað rangt. Þannig var það ekki.

En það sem gerist er að ef þessi leið ríkisstjórnarinnar á að ganga fram, ef það á að innkalla þetta stóran hluta af aflaheimildum sem að stórum hluta eru þannig komnar í eigu manna að þeir hafi greitt fyrir þær fullt verð, annaðhvort af sjálfsaflafé eða fengið til þess lán sem þeir eiga síðan að borga til baka, standa menn auðvitað frammi fyrir því að þau lán sem eru í greininni núna standa eftir veðlaus og það er enginn möguleiki fyrir útgerðina að greiða slík lán ef eignir útgerðarinnar eru rýrðar um ein 7% eða svo á ári. Það hlýtur að gefa augaleið. Menn geta velt fyrir sér hvort annar atvinnurekstur á Íslandi stæði það af sér ef tekjugrunnur greinarinnar yrði lækkaður á hverju ári um 7% eða svo. Innköllun aflaheimilda án þess að bætur komi til þýðir einfaldlega þetta. Fyrirtæki sem hefur kannski 100 tonn þarf þá að gefa frá sér sem nemur þeirri prósentulækkun sem ráðist verður í á grundvelli þess að aflaheimildir verða innkallaðar á 20 ára tímabili. Augljóslega getur engin atvinnugrein á Íslandi staðið undir slíku. Það þýðir þá að þær skuldir sem eru í greininni munu falla eitthvað. Einhvern veginn verða þær greiddar og þær falla þá á bankana vegna þess að fyrirtæki sem eiga að standa undir þessu verða gjaldþrota. Það er engin leið fram hjá því. (Gripið fram í.)

Þetta skiptir miklu máli þegar við veltum fyrir okkur því fyrirkomulagi sem við höfum hér varðandi afskriftahugmyndina sem nú hefur verið lögð til í þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Ég vek athygli yðar á því að klukkan fyrir ræðutímann er hætt að virka. Ég reikna með að fá þá bara tilkynningu þegar að því kemur að tíminn klárast.

Síðan kemur að þeim spurningum sem menn hafa rætt í þingsölum. Er það kerfi sem við búum við núna réttlátt eða ranglátt? Það má finna á því margar hliðar. Ákveðið réttlæti er fólgið í því að þeir sem hafa keypt til sín aflaheimildir, sem eru auðvitað langflestar útgerðirnar á Íslandi, hafi þar með eignast og fengið yfirráðarétt yfir þeim sóknarrétti sem þær aflaheimildir veita þeim. Það er ákveðið réttlætismál. Ég er þeirrar skoðunar líka að í ljósi þeirra ákvæða sem liggja til grundvallar lögum um fiskveiðistjórn sé einmitt kveðið á um þjóðareign. Hvað mig varðar lít ég svo á að það sé augljóst mál að íslenska þjóðin á þessa fiskstofna rétt eins og íslenska þjóðin á íslenskt land. Það breytir ekki því að það getur verið skynsamlegt að hafa séreignarfyrirkomulag og við höfum metið það svo að það eigi að vera á veiðiréttinum, rétt eins og við höfum séreignarfyrirkomulag á landnýtingu bænda. Það hreyfir ekki við þeirri staðreynd að við Íslendingar eigum landið okkar og það hreyfir ekki heldur við þeirri staðreynd að við Íslendingar eigum og höfum forræði yfir fiskstofnunum við landið, enda áskilur ríkisvaldið sér þann rétt að ákveða hver heildarafli á að vera og ýmislegt annað sem snýr að veiðunum, sem ríkisvaldið ákveður einmitt í krafti þessa.

Það að taka þá ákvörðun að víkja frá því fyrirkomulagi að það sé séreignarréttur á veiðiréttinum, á veiðiheimildunum, hefur mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér að mínu mati. Það grundvallast í fyrsta lagi á þeirri hugsun að ríkið eigi raunverulega þennan rétt og sé að kalla hann til sín, og hann hafi aldrei verið nema í eigu ríkisins. Ég er mjög ósammála þeirri skoðun og ég er nokkuð sannfærður um að niðurstaðan sem af því verður verður ekki til heilla fyrir íslenska þjóð. Eða eru menn búnir að gleyma því hvernig var ástatt í íslenskum sjávarútvegi á árum áður en við tókum kvótakerfið upp? Menn geta skoðað t.d. rekstrarniðurstöðu þessarar greinar. Þá blasir við sú mynd að frá og með árunum 1990 og 1991 — það var þegar ríkisstjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks tók ákvörðun um að heimila framsal sem var skynsamleg ákvörðun — hefur rekstrarniðurstaða þessarar greinar nærri því öll árin, að undanskildum tveimur, verið jákvæð. Árin þar á undan var allt öðruvísi um að lítast í greininni. Kannski eru menn búnir að gleyma því þegar biðstofur ráðherranna voru fullar af útgerðarmönnum sem biðu eftir fyrirgreiðslu frá ríkisvaldinu til að geta bjargað fyrirtækinu sínu frá gjaldþroti, þegar milljarðar fóru úr vösum skattgreiðenda, t.d. í bjargráðasjóðunum sem voru hér fyrir ekki svo mörgum árum þegar skattpeningar voru settir inn í sjávarútveginn. Þarna eru menn búnir að gleyma þeim ósköpum öllum. Eða meðferðinni á afla sem var hér t.d. á tímum skrapdagakerfisins og við höfum rætt í þessum ræðustól, og við ræddum hér í dag þegar við vorum að ræða um makrílinn. Hið sama gilti m.a. í þorskveiðunum af því að þær voru með sama fyrirkomulagi um margt, eins og makrílveiðarnar voru hér, vegna þess að það voru kappveiðar og í landvinnslunni var oft ekki möguleiki til að anna þeim afla sem barst að landi — vegna þess að menn voru að keppa sín á milli um að klára að veiða sem mest.

Allt þetta eiga menn að hafa í huga þegar verið er að finna nýjar leiðir eða menn ætla að gera stökkbreytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Enn og aftur er ekki þar með sagt að þetta kerfi sé gallalaust eða að við eigum ekki að ræða endurbætur á því. Ég er mjög þeirrar skoðunar að ýmsa þætti eins og ég kom að í upphafi ræðu minnar, sérstaklega sem snúa að samspili hafrannsókna og fiskveiðiráðgjafarinnar annars vegar og hins vegar kvótakerfisins, þurfi að skoða miklu betur. En það að setja það fram með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur gert að það eigi að innkalla þessar aflaheimildir á næstu 20 árum, þá væntanlega bótalaust, setur alla greinina í uppnám á þeim tíma sem hún má alls ekki við því.

Ég ætla hvorki að þreyta mig né hæstv. ráðherra með að fara yfir skoðanir mínar á ýmsu því sem hæstv. ráðherra hefur þó gert hingað til sem snýr að strandveiðum, (Gripið fram í: Það er nú allt …) skötusel og ýmsu öðru sem getur gert mann ósköp dapran í huga þegar menn horfa á afleiðingar þess, en hitt er að það eina sem gleður mig þó er að ég veit að hæstv. ráðherrann er glaður. Það gleður mig auðvitað, en fyrir hönd greinarinnar og fyrir hönd almennings á Íslandi er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að þegar þetta allt er saman tekið — þegar menn taka saman þá stefnuyfirlýsingu sem hér liggur fyrir, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrningar á aflaheimildum, aðrar aðgerðir sem hæstv. sjávarútvegsráðherra grípur til, aðgerðir sem allar miða að því að grafa undan þeim grundvelli sem þó hefur verið í sjávarútveginum, sem við höfum byggt sjávarútveginn á, sem hefur þó gert það að verkum að skattpeningar fara ekki inn í þessa grein eins og var hér áður fyrr þegar þurfti að dæla milljörðum inn í greinina til að bjarga henni frá gjaldþroti, aftur og aftur — er ekki ástæða til að gleðjast. Það að við komumst út úr óefni var heilmikið afrek, og allir flokkar á þingi, bæði sem núna eru og þeir sem voru á árum áður, komu saman að þeirri vinnu af því að menn sáu alvarleika málsins og hann brann á mönnum. Og nú virðast margir hafa gleymt því við hvaða vandamál var að etja á þessum árum og ætla sér að fara hraðferð aftur inn í kerfi sem byggir á ríkisafskiptum, á stjórn stjórnmálamanna á greininni, m.a. með því að innkalla allar þessar aflaheimildir og hafa stjórn á því hvernig það verður síðan unnið, bótalaust, frú forseti, sem er náttúrlega mikið atriði, sem gerir það að verkum að það er mjög skiljanlegt að allir þeir sem að útgerð koma á Íslandi hafi miklar áhyggjur af þessu og það hamli fjárfestingum og framþróun í greininni akkúrat á þeim tíma sem við þurfum mest á framþróun að halda.

Samantekið, frú forseti, er það þannig að ef við ætlum að láta skynsemina ráða í þessu máli förum við þá leið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur þó lagt upp með, setjum málið í þann farveg að nefndin fáist við endurskoðun á íslenskum sjávarútvegi, það er sjálfsagt mál, og tökum í burtu þetta ákvæði. Ef það er ákvörðun og tillaga nefndarinnar að skoða slíka leið, gott og vel, en tökum þetta út núna, látum þetta ekki hanga yfir bæði nefndinni og greininni vegna þess að nefndin á að nálgast þetta þannig að það sé ekki fyrir fram búið að ákveða niðurstöðu nefndarinnar, að sjálfsögðu ekki, og greinin á ekki að þurfa að búa við þá óvissu sem þetta ákvæði býr til. Það er skoðun mín og það er skoðun þeirra hv. þingmanna sem flytja þessa tillögu, frú forseti.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.