142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:20]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tók til máls við 1. umr. um frumvarpið þegar það var lagt fram í fyrsta skiptið óbreytt og varaði sérstaklega við persónuverndarsjónarmiðum og ítrekaði við þingheim mikilvægi friðhelgi einkalífsins og friðhelgi einstaklinga.

Nú hefur komið fram breytingartillaga sem er vissulega til bóta en ég sé ekki að hún gangi nógu langt. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum, við verðum að segja minni hlutans, sem hafa talað hérna á undan mér að enn er í raun og veru óskýrt að tilgangur frumvarpsins sé nógu ríkur til þess að réttlæta þann vafa — sem við gefum því að við getum kallað það vafa en sem allir virðast nú vera sammála um — um að frumvarpið geti samræmst stjórnarskrá og mannréttindasáttmálanum.

Ég vil minna á að ákvæði um friðhelgi einkalífsins í stjórnarskrá og í mannréttindasáttmála Evrópu eru ekki sett þar inn léttvægt eða í gríni heldur eru þetta mikilvæg mannréttindi og þau eiga alltaf við. Þau eiga allir að virða og þau eiga alveg sérstaklega við þegar um stjórnvald er að ræða. Þess vegna vildi ég minna þingheim á að við erum vissulega stjórnvald og það ekkert smá stjórnvald, við erum löggjafinn í landinu, og það er okkar skylda að samþykkja ekki frumvörp eða tillögur sem brjóta í bága við stjórnarskrá og réttindi einstaklinga nema virkilega ríkir almannahagsmunir séu á ferðinni.

Ég vil meina að við séum komin á hálan ís. Breytingartillögurnar gera frumvarpið vissulega skárra en ég verð að taka undir með áliti minni hluta nefndarinnar að þær ganga ekki nógu langt. Mér finnst þær ekki breyta því að við erum á hálum ís og það að ferðast á hálum ís verður ekkert hættuminna þó svo að það sé gert með góðum ásetningi. Þess vegna vil ég taka undir með minni hluta nefndarinnar og óska þess, ef frumvarpið verður ekki lagt til hliðar, að unnið verði alla vega með það áfram.