148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kýs nú að líta svo á að hér sé ekki um einhverja reddingu fyrir þann ráðherra sem hér stendur að ræða. Hér hafa orðið mistök sem geta varðað borgara þessa lands. Löggjafanum ber auðvitað að uppfæra lög ef honum sýnist svo, ef menn eru sáttir um lagatextann, þjóðinni til heilla.

Þá vil ég ítreka að þetta frumvarp lýtur ekki sérstaklega að Landsrétti eða dómstólunum. Það liggur bara fyrir að við umfangsmiklar breytingar á nokkrum lagabálkum urðu þau mistök að ein lagagrein féll niður. Það má vissulega gagnrýna vinnubrögð ýmissa við það. Fyrst og síðast auðvitað þingsins sjálfs sem fær málið til umfjöllunar í nefndum sem hafa yfir að ráða starfsfólki og þingmönnum; mér heyrist að þeir hafi allir mjög sterkar skoðanir á þeim málum sem hingað berast og hljóta því að samlesa frumvörp við fyrirliggjandi lagabálka sem fyrirhugað er að breyta. Þingmenn þurfa því fyrst og síðast að líta í eigin barm.

Ég hef hins vegar sjálf tekið það upp við starfsmenn míns ráðuneytis hvort æskilegt sé að koma upp einhvers konar öðru fyrirkomulagi við umfangsmiklar lagabreytingar af þessu tagi. Það mun auðvitað ekkert endilega koma í veg fyrir að mistök eins og þessi gerist. Þau gerast svo sem við samningu frumvarpa hvar sem er, bæði í ráðuneytum og hér á Alþingi. Ég minnist reyndar í því sambandi nokkurra vel valinna þingmannamála sem hafa náð fram að ganga en verið dæmd ósamrýmanleg stjórnarskránni.

Það eru allir af vilja gerðir til að bæta verklag í dómsmálaráðuneytinu og örugglega annars staðar í Stjórnarráðinu. Og ég tel að þingmenn ættu líka að huga að því.