150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[17:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla að hætta á að höggva örlítið í sama knérunn og hv. þingmaður og hæstv. ráðherra gerðu áðan. Ég vona að hæstv. ráðherra verði ekki jafn gnafinn við mig og mér þótti hann í sumum svörum áðan. Ég ætlaði einmitt að leiðrétta ráðherra en hann gerði það sjálfur. Ég held að það sé mikilvægt að draga það fram eins og hæstv. ráðherra gerði hversu víðtækan stuðning þessi þingsályktun um aðgerðaáætlun hlaut í júní, og það er ekki langt síðan. Við vorum hér ansi mörg sem fögnuðum þeirri aðgerðaáætlun mjög, töluðum jafnvel um einhvers konar tímamót fyrir íslenskan landbúnað, að hér værum við að fara að stíga stór skref. Eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á naut málið stuðnings allra sem greiddu atkvæði, var samhljóða samþykkt. Ég segi ekki með húrrahrópum, forseti, en innra með okkur voru þau töluvert há og mörg.

Þess vegna er mikilvægt að hafa í huga þegar þetta mál kemur fram að það byggir á þeirri samþykkt. Við erum í raun að stíga næsta skref að þeirri samþykkt. Gerum það. Förum í að skoða þessi mál, tökum að sjálfsögðu tillit til áhyggna sem fólk hefur af hlutunum. Það er oft þannig að ef hlutirnir hafa verið með ákveðnum hætti lengi hefur fólk áhyggjur af breytingum. Leiðin til að sefa þær áhyggjur er að ræða almennilega við fólk og útskýra að þeim áhyggjum verði mætt. Það eru eðlilegar vangaveltur þrátt fyrir samþykktina í sumar um hvað þetta þýði. Framleiðnisjóður er inni í öðrum samningum eins og búvörusamningi og rammasamningi, eins og komið hefur verið inn á. Það er mjög eðlilegt að fólk velti því upp hvað það þýði. Verður þessu breytt hér og þar af leiðandi þar?

Þar er mikilvægt að hafa í huga að mínu viti tvennt. Hæstv. ráðherra kom inn á hluta af því áðan. Í aðgerðaáætluninni var sérstaklega kveðið á um þennan nýja sjóð, að tryggt yrði, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, að hlutfallsleg skipting fjármagns til þessarar atvinnugreinar verði með sambærilegum hætti og nú er. Það þýðir beinlínis að samkvæmt aðgerðaáætluninni eigum við að hafa hlutfallslega skiptingu úr þessum sjóði eins og nú er á milli atvinnugreina. Þar kemur til sögunnar deildaskiptingin sem hæstv. ráðherra kom inn á. Hitt er sú stefnumótun, sem er hafin nú þegar, sem fram kemur í greinargerðinni, þ.e. að sjóðurinn setji sér stefnu til nokkurs árafjölda í senn þar sem horft verði akkúrat til þess að hlutfallsleg skipting fjármagns verði með sambærilegum hætti. Sú stefnumótun, sem þegar er hafin undirbúningur að, verður gerð í samráði við Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Mér finnst það því vera nokkuð valdað hér á öllum stigum að þeir sem að þessum sjóðum koma í dag eða undir þá falla eða geta sótt um í þá, eru með í stefnumótun um nýja sjóðinn. Það er búið að binda það í þingsályktun og hér er það sagt í greinargerð, sem er lögskýringargagn, að hlutfallsleg skipting á milli atvinnugreina verði eins og hún hefur verið og það er hafin stefnumótun með aðkomu heildarsamtaka hvorrar atvinnugreinar fyrir sig. Einhverjir hafa kannski einhverjar áhyggjur en það er, eins og ég segi, bara mannlegt, ef fólk er vant einhverju og þykir það hafa virkað. Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því hvernig Framleiðnisjóður hefur virkað eða úthlutanir hans. Af einhverjum ástæðum erum við með hann inni í búvörusamningum aftur og aftur sem þýðir að við höfum litið til hans þannig að hann væri stjórntæki eða stuðningstæki sem virkaði. Þannig að mér finnst ekkert óeðlilegt að fólk velti upp þessum spurningum. Eins þegar menn horfa til stærðarmunar atvinnugreinanna tveggja. Það er ekkert óeðlilegt að einhverjir velti fyrir sér: Er stóra atvinnugreinin að fara að gleypa þá minni inni í þessum sjóði? En einmitt til að mæta þessum áhyggjum höfum við aðgerðaáætlun og eins er hér sérstaklega tiltekið við skiptingu þessa sjóðs til hvaða sjónarmiða verði horft.

Því miður, forseti, mun ég ekki fá þetta mál inn á mitt borð þar sem ég sit ekki lengur í hv. atvinnuveganefnd en mun að sjálfsögðu hafa áfram skoðun á þessum málum eins og hingað til. En ég held að með þessu frumvarpi sé hæstv. ráðherra að uppfylla þann vilja Alþingis sem fram kom í aðgerðaáætluninni. Við verðum að huga að því að við gerum það eins vel og hægt er og mér sýnist vera búið þannig um hnúta að við eigum að enda þar og minni á að þegar aðgerðaáætlunin var samþykkt þá fögnuðum við þeim tillögum sem þar voru innan borðs.