151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:36]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég held að þetta sé alveg rétt hjá hv. þingmanni og ég held að við séum sammála um að við erum í fyrsta lagi að hugsa í bráðaaðgerðum og í öðru lagi hvernig við getum komið ferðaþjónustunni og skyldum greinum til aðstoðar. Og kannski ekki bara ferðaþjónustunni heldur atvinnugreinum sem með einum eða öðrum hætti hafa verið að fara illa út úr þessari veiru — það er ekki eingöngu ferðaþjónustan, það er verslun og þjónusta, það er íþróttalíf, íþróttahreyfingin er stór vinnustaður o.s.frv. Síðan eru það þessar langtímahugsanir sem við megum þó ekki gleyma og þurfum að hafa hugfastar. Ég held að það hafi ríkisstjórnin gert í talsverðum mæli, m.a. með framsæknum aðgerðum í nýsköpunarmálum sem fjárveitingar hafa verið samþykktar til. Eðli máls samkvæmt festumst við stundum í bráðavandanum og horfum ekki til framtíðar. (Forseti hringir.) Þess vegna er þessi brýning hv. þingmanns góð.