132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Seðlabankinn segir í hefti sínu sem kom út að mig minnir í febrúarmánuði síðastliðnum — hann hefur reyndar sagt það áður eða í öðrum tilvikum bæði fyrr og síðar — að hinar miklu samanþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir sem eru bæði meiri að umfangi og hafa þjappast meira saman í tíma en áður var talið, séu frumorsakavaldur þenslunnar sem við er að glíma. (BJJ: ... ekki einir.) Þær nema, segir Seðlabankinn, um einum þriðja af landsframleiðslu heils árs á einum þrem, fjórum missirum og þetta er í raun og veru sett með handafli inn í hagkerfið hér.

Síðan bætast við hinar mislukkuðu skattalækkanir ríkisstjórnarinnar sem eru olía á eldinn og allar helstu ráðgjafarstofnanir hafa lagt til að verði frestað eða dregið úr. Þar til viðbótar kemur svo þenslan á fasteignamarkaði og bólan í byggingariðnaði. Þetta leggst vissulega allt saman og magnar upp ástandið. Það er alveg rétt. En frumorsakavaldurinn þarna er stóriðjustefnan. Hún setur ferlið af stað.

Spákaupmennskan sem hv. þingmaður talar svo um er afleiðing af því ástandi sem var orðið, er afleiðing af vaxtamuninum upp á 5–6% milli Íslands og nágrannalandanna sem er komin, er afleiðing af hinu sterka gengi krónunnar sem hitt skapaði. Hv. þingmaður er því á miklum villigötum ef hann ætlar að leita skýringa í spákaupmennskunni sem kemur til sögunnar vegna ástandsins sem þarna er orðið. Stóriðjustefnan er þarna mikil frumorsakavaldur.

Það er alveg rétt að hin beinu efnislegu áhrif hennar, sett í samhengi við stærðirnar í dæminu, eru ekkert svo óskapleg. En allir vita að væntingarnar risu með henni og með þeim ákvörðunum sem þar voru boðaðar. Enginn deilir um það. Og það sem meira er, áframhaldið viðheldur væntingunum. Þegar hæstv. iðnaðarráðherra ríður um héruð og boðar álver hér og álver þar er verið að halda uppi þessum væntingum, þessari spennu. (Forseti hringir.) Og það er að hrekja annað atvinnulíf út á gaddinn, úr landi, leggja það niður. Því erum við á móti. Það teljum við ekki vera framfarir.