142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:47]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra kærlega fyrir þessa umræðu sem ég tel að sé mjög mikilvæg, ekki síst eftir þær fréttir sem hafa borist okkur og það sem gerst hefur í sumar. Oft hafa yfirlýsingar og fréttir verið dálítið misvísandi og óljóst hver staðan er. Þó vil ég taka fram að ég fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra frá því fyrr í haust um að viðræðum hafi ekki verið slitið og viðræðum verði ekki slitið án aðkomu Alþingis.

Það er kannski dálítið skrýtið að koma hingað í þennan sal tiltölulega beint af götunni og hlusta á ágætar umræður hv. þingmanna hér á undan sem hafa langt líf, skulum við segja, í þessari umræðu og tala tæknilega um afstöðu hver annars í fortíð og nútíð og þingið. Það fær mann til að hugsa um það í raun og veru af hverju Ísland lagði inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu til að byrja með. Aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið hitamál sem hefur verið, eigum við að segja stóra rifrildið eða eitt af stóru rifrildunum í íslenskum landsmálum áratugum saman. Eftir hrunið árið 2009 tók þingið vissulega ákvörðun um að leggja inn umsókn og mér finnst dálítið skrýtið að hv. þingmenn í þingsal skuli rífast um hver ákvörðun þingsins hafi verið. Ég held að hún hljóti að hafa verið skýr.

Hæstv. utanríkisráðherra kom aðeins inn á það í skýrslu sinni að á þeim tíma voru miklir óvissutímar á Íslandi og staða okkar var ekki sterk. Ég spurði sjálfan mig hvort hann skilgreindi þá nútímann sem tímavissu, þ.e. að ekki væri lengur óvissa á Íslandi og staða okkar væri orðin sterk. Eins spurði ég mig að því hvort Evrópusambandið hefði verið einhvers konar jóker í spilinu eða einhvers konar fiff bara vegna þess að Ísland lifði óvissutíma. Er ekki Evrópusambandið einmitt samráðsvettvangur til að takast á við þá óvissu sem alltaf er í heiminum, sem alltaf er í stjórnmálunum og í viðskiptaheiminum, í efnahagsheiminum?

Ég hef oft gantast við vini mína úr Framsóknarflokknum, sérstaklega á ferðum í Brussel, með að það sé dálítið skýrt að Evrópusambandið sé kannski stærsta samvinnufélag í heimi. Evrópusambandið er í sjálfu sér ekkert annað en samráðsvettvangur sjálfstæðra ríkja.

Mig langar aðeins til að rifja upp orð Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Það er kannski ekki vinsælt að vitna í útlendinga en ég held að frú Merkel sé sjaldan kölluð stjórnmálalegur galgopi. Hún minntist nýlega á þá staðreynd að Evrópubúar væru 7–8% mannkyns. Í Evrópu væri hins vegar upp undir fjórðungur efnahagsumsvifa heimsins og 50% af velferðarútgjöldum heimsins. Evrópa er velferðarmannréttindaheimsálfa þar sem lagt er upp úr samfélagi sem er nákvæmlega samhljóma því samfélagi sem við erum að horfa á hér á Íslandi. Þess vegna höfum við í Bjartri framtíð verið jákvæð til inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Við höfum talið að við eigum heima í Evrópu, við séum komin frá Evrópu. Við höfum alltaf lagt ríka áherslu á að það eigi að klára viðræðurnar, komast að því hver staða Íslands er innan Evrópusambandsins og leggja síðan niðurstöðurnar fyrir þjóðina. Ég verð að spyrja mig, og hef spurt mig dálítið í sumar í þeirri óvissu sem hefur vissulega ríkt um stöðuna, hvort við værum að slíta viðræðunum eða ekki, hvort við værum að slíta viðræðuhópunum eða ekki, hvort slit á viðræðuhópunum væru merki um slit á viðræðunum o.s.frv. Í sumar hef ég velt fyrir mér af hverju í ósköpunum við viljum loka hurðinni og slíta viðræðum. Ég hef starfað mest allt líf mitt í viðskiptalífinu og ég hef aldrei upplifað að það hafi talist góður „bisness“ að neita sér um möguleika.