142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Já, það ber að þakka þessa umræðu hér í dag. Við vitum þá alla vega hvernig málin standa því að það hefur ekki verið á hreinu í allt sumar hvernig sambandi okkar við Evrópusambandið er háttað. Svo virðist sem hæstv. utanríkisráðherra hafi í kaffi- eða kokteilboðum sagt mönnum það að nú værum við hætt í þessum aðildarviðræðum, að sinni a.m.k. Stundum hefur manni skilist það líka að búið væri að slíta viðræðunum.

Forseti þingsins gaf mjög sköruglega yfirlýsingu um það þegar það var rætt hér fyrr í haust. Nú virðist svo vera að þetta mikilvæga mál, sem nú snýst sem sagt um að leggja niður samninganefndirnar, ekki slíta viðræðunum, hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn, alla vega hefur það verið staðfest hér í dag að þetta mál sem hlýtur að kallast mikilsvert utanríkismál hefur ekki verið rætt í utanríkismálanefnd, sem mér finnst mjög alvarlegt. Vissulega hefur hæstv. utanríkisráðherra lýst því þar, skilst mér, að hann væri að hugsa hitt og þetta en ekki sagt hvað hann ætlaði sér.

Virðulegi forseti. Það er ekki einkamál ráðherra hvernig þeir haga sér. Það er ekki einkamál hvernig utanríkisráðherra hagar samskiptum okkar við Noreg, Þýskaland, Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar eða NATO. Það er ekki einkamál ráðherra og þó að hann hafi vissulega mikið að segja og skipti miklu máli þá er það Alþingi Íslendinga sem ákveður hvernig við högum samstarfi okkar við erlendar þjóðir. Það skiptir máli.

Virðulegi forseti. Það eru svo sem ekki ný tíðindi að ég telji að hagsmunum okkar, hagsmunum íslenskrar þjóðar sé best borgið í náinni samvinnu við Evrópusambandið. Það eru heldur ekki ný tíðindi að ég telji það rétt fólksins í landinu að greiða atkvæði um aðild að Evrópusambandinu þegar samningaviðræðum, sem Alþingi ákvað að efna til, er lokið. Það er að mínu mati algjörlega út í hött sem sumir helstu andstæðingar þess að við æskjum aðildar að Evrópusambandinu, segja, að við eigum að greiða atkvæði um það áður en samningum er lokið hvort við viljum aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Það er algjörlega út í hött. Við hljótum eins og alltaf hefur verið lagt upp með að greiða atkvæði um aðild að Evrópusambandinu þegar við sjáum samninginn. Það er ekki að kíkja í pakkann vegna þess að enginn gengur endanlega til samninga fyrr en hann eða hún veit hvernig samningurinn lítur út.

Ég var þó fegin að heyra það í orðræðu hæstv. utanríkisráðherra, og orðin sem hann notaði, að ekkert hefði verið skemmt — það væri bara búið að fresta þessu, ekkert hefði verið skemmt. Ég þakka mínum sæla fyrir það. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði líka: Ekkert hefur verið eyðilagt. Við skulum þá þakka það að ekkert af þeirri miklu og góðu vinnu sem embættismenn íslenskra ríkisins hafa unnið í samningaviðræðum við Evrópusambandið hefur verið eyðilagt. Ég þakka það kærlega.

Í umræðum hér á þriðjudaginn og í flestum viðtölum við forustumenn þjóðarinnar hefur komið fram að erfiðasta úrlausnarefnið séu gjaldeyrishöftin og fjármagnshöftin. Trúa þeir því að við, 320 þús. manna þjóð, getum haldið uppi sjálfstæðum gjaldmiðli? Sýnir saga krónunnar að við getum það? Höfum við, 320 þús. manna þjóð, þann aga sem til þarf að halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli? Er það ekki mikið ábyrgðarhlutverk þegar við erum að vinna okkur upp úr þeim erfiðu efnahagsörðugleikum sem við höfum átt í (Forseti hringir.) að slá á frest, að loka á þann möguleika að við getum tekið upp almennilega mynt?