152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Áfallasaga kísilverksmiðjunnar í Helguvík er flestum kunn. Þegar verksmiðjan var starfandi þurftu margir íbúar í nágrenni hennar að leita sér læknishjálpar vegna mengunar. Að lokum fór svo að reksturinn var stöðvaður og Arion banki tók verksmiðjuna yfir vegna skulda. Bankinn stefndi síðan að því að selja hana aftur úr landi og lýstu íbúar á svæðinu almennt ánægju með þau áform. Það hefur sem sagt verið mikil andstaða meðal íbúa í Reykjanesbæ við þessa verksmiðju, kannski skiljanlega.

Nýverið kom fram í fréttum að eigendur kísilversins á Bakka á Húsavík vilja kaupa kísilverksmiðjuna í Helguvík. Þau áform hafa valdið hörðum viðbrögðum meðal íbúa í Reykjanesbæ sem óttast að til standi að endurreisa verksmiðjuna. Ríkissjóður eða skattgreiðendur studdu myndarlega við kísilverksmiðjuna á Húsavík á sínum tíma. Þannig borgaði ríkissjóður 3.525 milljónir í sérstök jarðgöng eingöngu fyrir verksmiðjuna, sem almenningur má ekki nota, 460 milljónir í lóðaframkvæmdir við verksmiðjuna og 236 milljónir vegna þjálfunarkostnaðar starfsmanna. Fyrirtækið fékk síðan 40% afslátt af hafnargjöldum í 14 ár.

Herra forseti. Nú dreg ég ekki úr mikilvægi kísilverksmiðjunnar á Bakka fyrir atvinnustigið í Norðurþingi en er ekki rétt, má ekki hugsa það sem svo, að fyrirtækið greiði ríkissjóði til baka þær 4.221 millj. kr. sem það fékk í styrki frá skattgreiðendum áður en það fer að fjárfesta í mengandi verksmiðju í Helguvík sem íbúarnir vilja ekki?