149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því ávallt þegar við fáum tækifæri til að ræða húsnæðismál hér í þessum sal. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé gert. Ég tel reyndar að við endum allt of oft í því, þegar verið er að ræða þennan mikilvæga málaflokk hér að umræðan verður einfaldlega allt of grunn. Það er alltaf talað um einhvern einn þátt sem talið er að skipti öllu máli þegar kemur að þessum markaði en því er ég algerlega ósammála. Ég held nefnilega að það séu mörg mismunandi atvik sem hafi skapað þær aðstæður sem uppi eru í dag.

En þá vil ég líka minnast á það að þessi markaður hefur sjaldan verið í jafnvægi hér á landi. Ef talað er um mannvirkjaiðnaðinn eða byggingariðnaðinn er það iðnaður sem í gegnum tíðina hefur tekið alveg gríðarlegum sveiflum. Ég held að það sem við hér í þessum sal ættum fyrst og fremst að einblína á sé að reyna að ná einhverju jafnvægi á þessum markaði. Eins og ég get verið sammála því að það sé velferðarmál, jafnvel geðheilbrigðismál eða barnaverndarmál, að allir hafi þak yfir höfuðið — og við getum öll verið sammála um það — þá erum við fyrst og fremst að tala um einn af stærstu mörkuðum á landinu. Það er mannvirkjageirinn. Og markaðurinn sem slíkur lýtur ekki félagslegum sjónarmiðum nema að litlum hluta. Þess vegna tel ég mikilvægt þegar við ræðum svona mál að fara yfir alla þætti þess. Ég ætla ekki að standa hér og þykjast hafa öll svörin á reiðum höndum — á sama tíma og ég held að svörin séu heldur ekki öll á reiðum höndum í þessari ágætu þingsályktunartillögu. Þó að hér séu kannski margir áhugaverðir punktar sem ástæða væri til að skoða sérstaklega held ég að það sé einfaldlega ekki svo einfalt að hægt sé að leysa þau vandamál sem uppi eru með þeim aðgerðum sem hér eru tilgreindar.

Ástæðan fyrir því að verðlagi er svo háttað sem er á þessum markaði er einfaldlega sú að framboðið er ekki nægjanlegt. En ástæðan fyrir því að framboð er ekki nægjanlegt er ekkert eitthvað eitt. Jú, sveitarfélögin hefðu örugglega öll getað staðið sig betur í því að skaffa lóðir. Samt vil ég minna á, þekkjandi vel til sveitarfélagsins Mosfellsbæjar, að í gegnum hrunið stóðu heilu hverfin tilbúin til aðgerða ef einhver hefði verið tilbúinn að fara í það að byggja upp íbúðir. Svo var einfaldlega ekki. Hér eftir hrun fóru bæði vélar, mannskapur og fjármagn úr landi og var ekki til staðar til að fara í þá uppbyggingu, þannig að það eru ýmsar ástæður fyrir því.

Það má eflaust gera eitthvað til að auðvelda ungu fólki kaup á sinni fyrstu íbúð. Það hefur þó töluvert verið gert. Ég held að það sé líka mikilvægt að á sama tíma og við höfum talað fyrir því að hér þurfi að vera öflugur leigumarkaður þurfum við að átta okkur á því að flestir vilja engu að síður eignast íbúð. En ég tek heils hugar undir að það er líka ákveðin breyta í lýðfræði og það eru fleiri sem vilja eiga kost á því að komast í öruggt leiguhúsnæði. Það þarf ekki allt að vera á félagslegum forsendum. Það getur líka vel verið á markaðslegum forsendum.

Mig langar líka að koma hér á framfæri — því það kom bæði fram í ræðu hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér og gott ef ekki líka í ræðu frummælanda þessarar þingsályktunartillögu — að þegar verið er að ræða um sveitarfélögin og mikilvægi þess að þau standi undir þeirri ábyrgð sem er sett á þeirra herðar, að skaffa félagslegt húsnæði þegar svo ber undir, er það hreinlega ekki svo, eins og stundum er haldið fram í umræðunni, að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið sem standi sig í þeim efnum. Hér var vísað í tölur áðan sem ég held að séu tölur um fjölda íbúða sem viðkomandi sveitarfélög eiga og leigja áfram inn í félagslega kerfið sitt. Ég veit að það er 81 íbúð í Mosfellsbæ sem er í félagslegri leigu, þó að það sé 31 sem sveitarfélagið sjálft á. Það er svo mikilvægt að við horfum á að sveitarfélögin hafa farið misjafnar leiðir. Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að eiga fyrirtæki sem heitir Félagsbústaðir og keypt upp fjölda íbúða og leigir þær áfram. Önnur sveitarfélög hafa farið í samstarf við aðra aðila eins og Öryrkjabandalagið eða félög á þeirra vegum, Búseta eða hreinlega bara leigt íbúðir á markaði og endurleigt svo áfram inn í sitt félagslega kerfi. Ég held að sveitarfélögunum eigi að vera það í sjálfsvald sett hvaða leiðir þau fara í þeim efnum, svo lengi sem þau uppfylla þá þörf sem uppi er í sveitarfélaginu.

Mig langaði líka að ræða hér aðeins þennan þátt sem oft kemur til umræðu varðandi framboðið, að framboðið sé ekki í neinu samræmi við eftirspurnina. Nú er ég ekki bara að meina skort á framboði heldur þegar rætt er að hér sé eingöngu framboð á stærri íbúðum eða dýrari en eftirspurn sé eftir ódýrari. Ég efast ekki um að það er staðan að mörgu leyti. Ég furða mig samt sem áður á því að þegar við ræðum svona gríðarlega mikilvægan markað og iðnað eins og mannvirkjagerðin er séum við öll að reiða okkur eingöngu — og þá er ég að tala um bæði bankana og Íbúðalánasjóð og aðra aðila á markaði — á tölur sem koma frá Samtökum iðnaðarins. Nú ætla ég ekki að tala Samtök iðnaðarins niður en talnanna sem þeir eru með afla þeir hreinlega með því að keyra í gegnum byggingarsvæðin og ræða við byggingarverktaka um hvað sé á takteinum hjá þeim. Það er ótrúlegt árið 2018 að við skulum ekki hafa öruggari tölur en þetta. Því að þessi gögn eru öll til í kerfinu. Það liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun hvað búið er að skipuleggja í sveitarfélögunum, hversu stórar þær íbúðir eru. Þau liggja inni í hverju einasta sveitarfélagi öll þau byggingarleyfi sem veitt hafa verið. Það ætti að vera auðvelt að draga þessi gögn fram og segja: Þetta er nákvæmlega það sem er til á lager, ef svo mætti að orði komast.

Það er nú reyndar svo að Skipulagsstofnun fékk þetta verkefni í landsskipulagi — nú átta ég mig ekki á því hvort það voru lög, væntanlega þingsályktunartillaga um landsskipulag. Skipulagsstofnun fékk það verkefni að halda utan um öll skipulögin og veita þessar upplýsingar inn á markað. Ég veit að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu treysta mjög á þetta við vinnu á svæðisskipulaginu þar sem verið var að reyna að taka aðeins þá miklu miðstýringu sem hafði verið í eldra svæðisskipulagi og færa aukið vald yfir til markaðarins. En þá er það auðvitað krafan að þær upplýsingar liggi fyrir á markaði.

Því miður hefur Skipulagsstofnun ekki enn þá forgangsraðað með þeim hætti að setja þetta verkefni í forgang. Ég hef nefnilega töluverða trú á markaðnum og vænti þess að ef þessar upplýsingar lægju fyrir með aðgengilegri hætti gætu þeir aðilar sem starfa þarna úti á markaði, hvort sem það eru aðilarnir sem eru að lána eða aðilarnir sem eru að byggja og framkvæma, veðjað betur á hver þörfin er, hvar eftirspurnin liggur og hvað er í pípunum.

Ég ætla líka að segja það hér að eins og ég er fullviss um að það sé rétt — og við vitum það, við sjáum það öll að skortur er á íbúðarhúsnæði, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu og einnig víða á landsbyggðinni — leyfi ég mér jafnframt að efast um þær tölur sem hafa komið fram í spám Íbúðalánasjóðs um þörfina á markaðnum. Þær eru alla vega mun hærri en sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu hafa áætlað í sínu svæðisskipulagi um hvað þurfi að byggja á hverju ári.

Við erum að vinna okkur út úr kreppuástandi, þegar ekkert var byggt í nokkur ár. Að sjálfsögðu tekur það ákveðinn tíma að vinna sig upp í því. Ég hefði auðvitað, eins og allir hér inni, viljað sjá það gerast mun hraðar. En ég hef þó þá trú að við séum að nálgast það og það sé það mikið í pípunum að óvarlegt sé að tala með þeim hætti að hér ættu sveitarfélögin að fara að brjóta nýtt land og byggja upp heilu hverfin að nýju. Það er auðvitað alltaf svolítill slaki. Það tekur alltaf svolítinn tíma fyrir þessar íbúðir að koma inn á markað sem verið er að framkvæma akkúrat núna. Mig langar bara í þessari umræðu líka að minna á að það er ekkert langt síðan sveitarfélögunum var legið á hálsi fyrir að hafa skipulagt of mikið fram í tímann. Það kom út skýrsla sem bar heitið Veðjað á vöxt og sveitarfélögunum var kennt um að hafa verið í samkeppni um lóðir.

Ég er kannski fyrst og fremst að benda á að það eru ýmsir angar í þessari umræðu. Mér þykir hún oft á tíðum vera of grunn hér hjá okkur. Ég fagna því engu að síður að fá tækifæri til að ræða húsnæðismálin því að ég held að það sé mikilvægt og það er margt gott í þessari þingsályktunartillögu sem ég held að við ættum að skoða frekar. Ég hef til að mynda sérstakan áhuga á því að skoða byggingarreglugerðina og ákveðið samstarf við Norðurlöndin í þeim efnum. Það gæti ýtt undir frekari hagkvæmni á þessum markaði. Ég held líka að nauðsynlegt sé að leggja fjármuni í meiri rannsóknir og nýsköpun á sviði fasteigna- og húsnæðismarkaðarins og held að ríkið hafi gert ákveðin mistök með að hafa dregið sig algerlega út úr því með Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Það vantar þá aukið fjármagn inn í samkeppnissjóði eða aukinn áhuga hjá samkeppnissjóðunum um að sýna þessum mikilvæga markaði áhuga.

Þá er tími minn útrunninn. Ég hef ekki mikið meira að segja um málið akkúrat eins og er.