154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um almennar sanngirnisbætur. Upphaf lagasetningar á þessu sviði má rekja til ársins 2007 þegar sett voru lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007. Í samræmi við þau lög tók nefnd, sem jafnan gekk undir heitinu vistheimilanefnd, til starfa og skilaði á næstu árum nokkrum skýrslum um aðbúnað barna á þeim vist- og meðferðarheimilum sem ákveðið var að taka til rannsóknar. Í framhaldi af skýrslu vistheimilanefndar um vistheimilið í Breiðavík voru árið 2010 sett lög nr. 47/2010, um fyrirkomulag á greiðslu sanngirnisbóta fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem féllu undir lögin frá 2007. Árið 2020 var ákveðið að gera breytingar á lögum nr. 47 /2010, sbr. lög nr. 148/2020, og ná þau nú til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum fyrir fötluð börn sem starfræktar voru á vegum hins opinbera og þar sem börn voru vistuð sólarhringsvistun. Með þeim lögum voru lög nr. 26/2007 jafnframt felld úr gildi frá 1. janúar 2021 og mælt fyrir um brottfall laganna frá árinu 2010, þau munu falla brott 31. desember 2023 en uppgjöri á grundvelli þeirra laga telst lokið.

Frá og með næstu áramótum eru því engin lög í gildi sem fjalla um fyrirkomulag á greiðslu sanngirnisbóta vegna misgjörða opinberra aðila. Þrátt fyrir það standa vonir margra til þess að ýmis starfsemi opinberra aðila eða einkaaðila á þeirra vegum, sem sagt einkaaðila sem hafa fengið einhvers konar leyfi eða samning við hið opinbera, sé könnuð og í þeim tilvikum þar sem slíkri könnun er lokið eigi þess kost að fá greiddar sanngirnisbætur. Ég vil nefna til að mynda sérstök lög sem sett voru á Alþingi um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa, nr. 45/2022, en ég mælti fyrir því frumvarpi hér á sínum tíma. Á grundvelli þeirra laga skipaði Reykjavíkurborg nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa fyrir börn sem starfræktar voru í Reykjavík á síðustu öld. Nefndin skilaði skýrslu um málið til borgarinnar 4. október síðastliðinn. Einnig liggur fyrir greinargerð Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála frá því í september 2022 um starfsemi meðferðarheimilisins í Varpholti og á Laugalandi á árunum 1997–2007. Þá kynnti dómsmálaráðherra síðasta vetur í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um sanngirnisbætur handa þeim sem vistaðir voru á vistheimilinu á Hjalteyri. Var það í samræmi við fyrirætlanir um framlagningu frumvarps í þá veru í þingmálaskrá fyrir 153. löggjafarþing en slíkt frumvarp hefur þó ekki verið lagt fram.

Ég vil einnig nefna að Alþingi ályktaði 12. júní 2021 með þingsályktun nr. 30/151, að fela mér að skipa þriggja manna nefnd til að undirbúa rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda. Skýrsla nefndarinnar var afhent mér vorið 2022 og 8. júní 2022 lagði ég þá skýrslu fram hér á Alþingi í samræmi við ályktun þingsins. Í þeirri skýrslu er að finna þá tillögu nefndarinnar að rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda fari fram samkvæmt fyrirmælum laga um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011. Þessi skýrsla er nú til meðferðar hjá velferðarnefnd Alþingis sem bíður það verkefni að taka afstöðu til þeirrar tillögu nefndarinnar.

Síðan má auðvitað nefna ýmis önnur mál sem hafa komið upp hjá einstaklingum sem tilheyra hópum sem hafa mögulega ekki þétt raðirnar þannig að ákalli þeirra um rannsókn hafi verið sinnt eins og vonir þeirra standa til. Ég gæti nefnt ýmis mál í því samhengi sem ég ætla svo sem ekki að telja upp hér því að hættan er sú að maður gleymi einhverjum.

Að mínu viti er langtum skynsamlegast að bregðast við þessu ákalli með almennu úrræði sem tekur bæði á þeim þætti sem lýtur að könnun á misgjörðum opinberra aðila og einkaaðila á þeirra vegum og fyrirkomulagi á greiðslu sanngirnisbóta. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir tekur á báðum þessum þáttum og er vonandi svar við þessu ákalli.

Í ýmsum þeim rannsóknarskýrslum sem hefur verið skilað frá nefndum sem hafa rannsakað einstök heimili hefur komið fram ákall um að hugað verði að því að komið verði á fót almennu úrræði sanngirnisbóta að norskri fyrirmynd. Frá árinu 1953 hafa Norðmenn verið með ákveðinn ramma utan um greiðslu sanngirnisbóta. Ég ætla að byrja á því að vitna í þessar skýrslur. Þannig er í skýrslu nefndar frá 31. janúar 2008, um könnun á starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979, að finna þá tillögu að stjórnvöld muni við ákvarðanir um frekari útfærslu þessara mála hafa til hliðsjónar það fyrirkomulag um greiðslu bóta sem lagt hefur verið til grundvallar í Noregi. Þá kemur fram í skýrslu vistheimilanefndar um könnun á vistun barna á Kópavogshæli 1952–1993, en þeirri skýrslu var skilað 19. desember 2016, að nefndin mælir eindregið með því að mótað verði nýtt fyrirkomulag um könnun og uppgjör sanngirnisbóta vegna illrar meðferðar og ofbeldis gagnvart börnum á stofnunum og vísar nefndin í því sambandi til þess að hafa megi til hliðsjónar fyrirkomulag slíkra mála í Noregi. Loks er í skýrslu um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, sem skilað var í desember 2018, sú leið nefnd að setja almennan ramma um sanngirnisbætur og vísað til hins norska fyrirkomulags.

Fyrirkomulag Norðmanna er þó ekki að öllu leyti eins og það sem lagt er hér til. Í fyrsta lagi er það svo að á vegum norska Stórþingsins er starfandi sanngirnisbótanefnd sem fjallar um beiðnir einstaklinga um bætur fyrir tjón eða óhagræði sem þeir hafa orðið fyrir og sem ekki er hægt að fá bætt á annan hátt. Munurinn á því fyrirkomulagi og því sem hér er lagt til er að leið Norðmanna byggir á ólögfestum grunni. Hún hefur þróast í framkvæmd á vegum nefndar Stórþingsins. Eins og áður segir var sú nefnd sett á laggirnar árið 1953. Móttaka og umsýsla umsókna um bætur á þessum grundvelli er þó hjá stofnun sem heyrir undir dómsmálaráðuneyti. Stofnunin fer yfir umsóknir og aflar umsagna hjá öðrum stjórnvöldum og fagaðilum eins og þörf krefur hverju sinni. Síðan tekur stofnunin saman álit á því hvernig bregðast eigi við hverri og einni umsókn og sendir sanngirnisbótanefnd Stórþingsins. Úrlausnir sanngirnisbótanefndarinnar eru endanlegar og ekki er hægt að skjóta þeim til dómstóla. Í Noregi hefur áherslan verið lögð á að önnur sjónarmið geti ráðið ferðinni en eingöngu lögfræðileg eða stjórnsýsluleg við ákvörðun sanngirnisbóta og það frumvarp sem ég mæli hér fyrir, sem vissulega felur í sér lögfestingu á ákveðnu fyrirkomulagi, ólíkt Noregi, tekur mið af þessari norsku leið þegar kemur að uppbyggingu kerfisins og þeim sjónarmiðum sem þar eiga að ráða för.

Frú forseti. Í frumvarpinu felst að heimilt verði að greiða bætur úr ríkissjóði til þeirra einstaklinga sem hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi vegna háttsemi opinberra aðila á stofnunum ríkisins, háttsemi sveitarfélaga eða af hálfu einkaaðila á grundvelli ákvörðunar eða samnings við opinberan aðila eða samkvæmt opinberu leyfi samkvæmt lögum sem valdið hefur þeim varanlegum skaða sem ekki fæst bættur á annan hátt. Gert er ráð fyrir því að sérstök matsnefnd sanngirnisbóta taki við umsóknum, leggi mat á umsóknir og geri tillögu til sanngirnisbótanefndar um greiðslu sanngirnisbóta. Sanngirnisbótanefnd taki síðan endanlega ákvörðun hverju sinni um greiðslu bóta til einstaklinga. Tekið skal fram að um er að ræða bætur sem er ekki ætlað að bæta fjárhagslegt tjón einstaklinga að fullu, eins og við þekkjum úr skaðabótum, heldur snýst þetta um svokallaðar sanngirnisbætur.

Að meginstefnu til verður horfið frá þeim einstöku umfangsmiklu og tímafreku rannsóknum sem hingað til hafa verið grundvöllur fyrir greiðslu sanngirnisbóta og þess í stað mælt fyrir um almennan og um leið einstaklingsbundinn farveg fyrir slík mál. Með því móti þurfa þau sem upplifað hafa mannskemmandi stofnanaranglæti á eigin skinni ekki að tilheyra áberandi hópi í samfélagsumræðu og ná þannig eyrum stjórnvalda og Alþingis til þess að mæta sanngirni og lausn sinna mála líkt og raunin hefur verið fram að þessu.

Mér finnst þó mikilvægt að ítreka að ekkert er þó því til fyrirstöðu að umfang eða eðli illrar meðferðar eða ofbeldis gagnvart hópi einstaklinga kalli á sérstaka rannsókn samkvæmt ákvörðun stjórnvalda eða Alþingis. Tryggt er í frumvarpinu að niðurstöður slíkra einstakra rannsókna verði þá hluti af þeim gögnum sem til skoðunar koma þegar umsóknir einstaklinga sem undir slíkar rannsóknir heyra eru metnar.

Verði frumvarp þetta að lögum mun ríkissjóður bera kostnað af greiðslu sanngirnisbóta en ekki er hægt að leggja mat á umfang kostnaðarins á þessu stigi. Þó má búast við, eins og áður segir, að ekki verði í sama mæli þörf á stórum, tímafrekum og fjárhagslega dýrum rannsóknum varðandi tiltekna hópa og þar með verði sá kostnaður í lágmarki. Við skulum heldur ekki gleyma því, frú forseti, að þrátt fyrir fjárhagslegan kostnað af lagasetningu þarf að líta til þess að frumvarpið er lagt fram til að bæta stöðu viðkvæmra þjóðfélagshópa sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða vegna misgjörða opinberra aðila eða einkaaðila á þeirra vegum, fá viðurkenningu á slíkum misgjörðum og greiddar sanngirnisbætur þegar öll önnur réttarúrræði eru tæmd.

Ég hef vissulega heyrt á mótunartíma þessa frumvarps ýmsar efasemdaraddir, ýmist í þá veru að þetta verði of dýrt eða þá að verið sé að spara í málaflokknum og að slíkt sé skammarlegt. Ég veit eiginlega ekki hvernig maður á að nálgast slíka umræðu því að það er alveg ljóst að hún kemur úr mjög ólíkum áttum. En mér finnst aðalmálið í þessu máli vera að með slíkum almennan ramma verður unnt að mæta þolendum stofnanaranglætis með skilningi og viðurkenningu að leiðarljósi og aflétta heilsuspillandi þjáningu þessa fólks. Þá er einnig mikilvægt að horft sé til þeirra varnaðaráhrifa sem frumvarpið, ef það verður að lögum, mun hafa í för með sér. Opið aðgengi almennings að faglegri áheyrn á þessu sviði mun setja vönduð vinnubrögð á dagskrá með nýjum hætti hvarvetna þar sem fólk nýtur þjónustu á vegum opinberra aðila. Mér finnst það satt að segja gott. Mér finnst það vera heilbrigðismerki á samfélagi að vera reiðubúið að takast á við misgjörðir hins opinbera gagnvart einstaklingum með slíkum opnum hætti, ekki bara til að læra af því heldur líka til að viðurkenna slíkt ranglæti og gera sitt til að reyna að bæta fyrir.

Frú forseti. Við mótun þessa frumvarps var haft hefðbundið samráð eins og við þekkjum, samráðsgátt Stjórnarráðsins og annað slíkt, um efnistök þess en þó var heldur meira í lagt en venjulega, enda er ekki um neitt venjulegt frumvarp að ræða. Haldnir voru fundir með fulltrúum þeirra aðila sem sinna málefnum sanngirnisbóta í Noregi í þeim tilgangi að fá sem skýrasta mynd af hinni norsku leið. Áform voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, eins og ég nefndi, drögin að frumvarpinu einnig og eins og hv. þingmenn geta séð í samráðsgáttinni bárust fjölmargar umsagnir sem gáfu mér tilefni til að staldra við og endurskoða efni einstakra ákvæða frumvarpsins. Í því skyni ákvað ég að fá til liðs við forsætisráðuneytið séra Bjarna Karlsson sem hefur áratugareynslu við að aðstoða þolendur misgjörða og var aðstoð hans ómetanleg í þeirri viðleitni að gera frumvarpið vel úr garði. Hann tók að sér að leiða fundi ráðuneytisins með hópum þolenda stofnanaranglætis sem létu að sér kveða í umsögnum í samráðsgáttinni og kann ég honum miklar þakkir fyrir það framlag. Til liðsinnis á fundum ráðuneytisins og hópa þolenda voru einnig þær Guðný Björk Eydal félagsráðgjafi, Ragnheiður Björk Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi, og Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir. Þeirra framlag var einnig mjög mikilvægt í þessari vinnu og kann ég þeim þakkir fyrir það.

Eftir að hafa sjálf hlýtt á raddir þolenda úr ýmsum áttum sannfærðist ég enn frekar um að við yrðum að fara þessa leið, einfalda kerfið okkar, gera það almennara en fylgjast þó ávallt með þannig að vitneskjan um stofnanaranglæti sé uppi á borðum. Ég þakka þeim sem hafa unnið með mér að þessu frumvarpi en ekki síður þakka ég þeim sem hafa stigið fram og deilt reynslu sinni og sýn á kerfi hins opinbera því að það krefst hugrekkis og krefst mikils af fólki að taka það skref.

Frú forseti. Allt frá því að Breiðavíkurmálið kom upp, og það er alveg merkilega stutt síðan, hefur veruleiki stofnanaranglætis verið á dagskrá hjá þjóðarsálinni. Það hefur orðið til mikil þekking í þeim viðamiklu rannsóknum sem ráðist hefur verið í og eru enn á döfinni. Í stað þagnarinnar sem áður gilti um mál af þessum toga hefur verið brugðist við með virkum aðgerðum. Við höfum séð gildi þess að leyfa sannleikanum að birtast. Sannleikurinn er alltaf fallegur, hversu ljótur sem hann er, skrifaði skáldið Dagur Sigurðarson einhverju sinni. Það á við hér því að þögnin um mistök og ranglæti er kostnaðarsöm. Hún nærir skömmina og rænir einstaklinga og hópa heilsu sinni líkt og svo berlega kemur fram í nýrri skýrslu um vöggustofur í Reykjavík á liðinni öld.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Það felur í sér viðleitni gagnvart þolendum stofnanaranglætis af hálfu hins opinbera. Mér er fullkomlega ljóst að verði þetta frumvarp að lögum bætir það ekkert allan skaða. En það er hugsað sem raunverulegur stuðningur við að lifa síður í skugga reynslunnar en frekar í ljósi hennar á vegferð til bata. Jafnframt er mikilvægt að leggja áherslu á að samhliða greiðslum sanngirnisbóta standi þeim sem þær þiggja til boða úrræði heilbrigðis- og velferðarkerfisins lögum samkvæmt eins og við á hverju sinni. Þetta mál er auðvitað ekki flokkspólitískt. Þetta er mál sem kemur fyrst og fremst til vegna reynslu minnar í forsætisráðuneytinu í sex ár þar sem mörg þessara mála hafa komið inn á mitt borð og eftir mjög ítarlega skoðun af ólíkum leiðum sem engin er einföld í þessum málum.

Ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem fær þetta frumvarp til umfjöllunar, gefi því góðan tíma og kafi djúpt í það því að það veitir ekki af að fá vandaða þinglega meðferð og kalla eftir öllum sjónarmiðum. Að sjálfsögðu vonast ég til þess að frumvarp sem þetta njóti velvildar í öllum þingflokkum. En fyrst og fremst held ég að það sé gríðarlega mikilvægt einmitt að við nýtum tímann í þingstörfunum til að kafa djúpt í málið því að þetta er mál sem varðar samfélagsgerðina.

Frú forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.