140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:30]
Horfa

Amal Tamimi (Sf):

Frú forseti. Í dag er sögulegur dagur fyrir Íslendinga og Palestínufólk. Ísland er að viðurkenna sjálfstætt palestínskt ríki. Ég get ekki verið meira stolt af því að fá að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu. Ég get sagt að ég er bæði og, ég þarf ekki að vera íslensk eða palestínsk, ég er bæði og. Ísland er að stíga stórt skref í stuðningi við mannréttindi. Ísland er að viðurkenna réttindi fólks til að fá að lifa í friði, að Palestína verði sjálfstætt ríki.

Með þeirri viðurkenningu er Ísland að segja við börn í Palestínu að það sé von — þið eigið að vera með sömu réttindi og önnur börn, þið getið farið í skóla, leikið og haft það gaman án þess að vera hrædd um að verða drepin. Við á Íslandi vitum að viðurkenning þýðir friður, frelsi og mannréttindi. Við Íslendingar viljum frið fyrir okkar börn og líka börn í Palestínu.

Í dag er ég ein af þeim 80% Íslendinga sem vilja viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Þess vegna segi ég já.