140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[04:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú bið ég hv. þingmann um að taka það ekki óstinnt upp þó ég sé að spyrja út í þetta, ég er ekki að gagnrýna það að hann hafi gegnt störfum sínum sem þingmaður í alþjóðanefndum. Ég er bara að velta því fyrir mér hvort hann gæti veitt okkur þær upplýsingar sem að honum snúa persónulega, hversu margar ferðir hann hefur farið til útlanda á vegum þingsins, hversu margar þeirra voru óþarfar og bruðl, hversu mikill kostnaður lá þar að baki í flugfargjöldum, uppihaldi og ferðapeningum o.s.frv. Ég get á móti upplýst hv. þingmann um það að ég hef farið í eina slíka ferð á kjörtímabilinu og beðist undan fjölmörgum og talið kröftum mínum betur varið hér heima en í slíkt.

Ég held að við séum nokkuð sammála um að draga hefði mátt verulega úr þessum kostnaði eins og við tókum við því, reyndar ekki í fjárlaganefnd heldur í ákveðnum hópi sem tók að sér að vinna í ríkisfjármálum sumarið 2009, og lögðum þá til tilteknar breytingar í þessum málum, bæði að fækka ferðum, eða að rýra möguleika þingmanna, opinberra starfsmanna, til utanlandsferða, m.a. að varamenn færu ekki út o.s.frv., og erum örugglega bara á svipaðri skoðun í þessum málum og örugglega má gera betur þarna eins og víða annars staðar.

Af því hv. þingmaður nefndi að þetta væri svona meira og minna bruðl sem þarna væri á ferðinni ítreka ég fyrri spurningar mínar til hans, hversu margar bruðlferðir hann fór, hv. þingmaður, hversu margar ferðir voru óþarfar og hvers vegna hann var þá að fara þessar ferðir og hvort það er álit þingmannsins að þessar ferðir sem farnar eru til að efla alþjóðasamstarf og viðhalda samstarfi Íslands við aðrar þjóðir, hvort þær séu að stofninum til óþarfar og hvort þá megi leggja þetta að mestum parti af.