145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Bresk stjórnvöld kynntu í hádeginu frumvarp sem er ekki bara pólitískt sprengiefni heldur hefur það að gera með grundvallarmannréttindi Breta. Samkvæmt þessu nýja frumvarpi sem Theresa May innanríkisráðherra kynnti verður gerð krafa um að netfyrirtæki geymi í eitt ár allar upplýsingar um þær netsíður sem breskir einstaklingar heimsækja og að lögregla og öryggisstofnanir geti hvenær sem er kallað eftir þessum upplýsingum sé talin þörf á. Til viðbótar þrýsta bresk stjórnvöld mjög á að fá aðgang að samskiptaforritum eins og til dæmis Whatsapp þannig að hægt sé að njósna um samskipti einstaklinga í gegnum þessi forrit. Bresk stjórnvöld eru hér væntanlega að opna möguleika á einum mestu persónunjósnum sem þekkjast í vestrænu ríki. Menn leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál.

Rökin á bak við þetta frumvarp eru þau að um nauðsynlega forvörn sé að ræða til að hægt sé að hafa upp á hryðjuverkamönnum, barnaníðingum og öðrum slíkum. Með því að skoða netnotkun grunaðra einstaklinga aukist möguleiki á að hægt sé að hafa hendur í hári þeirra. Andstæðingar benda hins vegar á að mjög ríkar heimildir til persónunjósna séu þegar fyrir hendi í Bretlandi og að reynslan hafi sýnt að slíkar upplýsingar séu alls ekki öruggar hjá netfyrirtækjum. Þvert á móti hafi hakkarar margsinnis náð að komast yfir persónuupplýsingar á netsíðum og jafnvel misnotað þær í ágóðaskyni.

Nú ætla ég ekki að skipta mér sérstaklega af breskum stjórnmálum en þetta frumvarp vekur mann til umhugsunar um hvert þessi mál stefna í alþjóðlegu samhengi. Stóri bróðir teygir sig sífellt lengra og það er full ástæða fyrir okkur að fara varlega í þessu sambandi. Við viljum ekki að hvert skref okkar sé skráð og að njósnað sé um allar okkar athafnir. Þannig samfélag viljum við ekki og vonandi fylgjum við ekki fordæmi Breta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna