148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta hefur verið ágæt og fróðleg umræða. Mig langar aðeins að víkja að nokkrum atriðum sem komu fram hjá hv. framsögumanni og 1. flutningsmanni frumvarpsins. Þar varð honum tíðrætt um lýðræðið. Honum varð líka tíðrætt um að hugsanlega hefðu verið einhverjar sérkennilegar hvatir sem lægju að baki því að Viðreisn reyndist ekki samvinnuþýð í málinu, ég ætla ekki að orðlengja það, en hann sagði þó að þetta væri væntanlega sprottið af ósk Viðreisnar um að koma að fulltrúum í borginni, því að þá yrði það auðveldara, ef borgarfulltrúum væri fjölgað. Ég er nú ekki alveg sannfærður um að það sé rétt skoðun miðað við það fylgi sem við munum nú ná og vísbendingar eru um. Ég held að þær áhyggjur hafi verið ástæðulausar.

En maður leyfir sér kannski að gagnálykta út frá þeirri skoðun hv. flutningsmanns og segja: Eru þeir þá sem á fleti sitja fyrir að verja sitt vígi og passa upp á að aðrir komist ekki að? Það gæti hvarflað að sumum, þó að ég vilji ekki gera hv. þingmanni upp þá skoðun.

Annað sem flutningsmaður nefndi var að nauðsynlegt væri að halda stöðugleika á sveitarstjórnarstiginu. Það væri þannig að fólk forðaðist það frekar, það væri ekki eftirsóknarvert að vera þar í vinnu og mjög nauðsynlegt að viðhalda stabíliteti þannig að ekki væri gott ef miklar umbreytingar yrðu í sveitarstjórninni í einu vetfangi. Svo nefndi hann sérstaklega að konur ættu erfitt uppdráttar í sveitarstjórnum. Ég reikna með að það sé alveg rétt og veit að það er rétt. Það gildir almennt um þátttöku kvenna, því miður, í stjórnmálum. Þær virðast endast skemur eða rekast á þær hindranir að þær eiga ekki frama í stjórnmálum eða sækjast ekki eftir honum eða geta það ekki af einhverjum ástæðum.

Það leiðir hugann að því að nú eru óneitanlega að fara af stað sveitarstjórnarkosningar og borgarstjórnarkosningar. Í dag mun Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík taka ákvörðun um uppstillingu hjá sér. Þar sýnist mér að reynsla af sveitarstjórnum sé ekki alveg forgangsatriði við val á þann lista. Mér sýnist að þeir sem munu komast að, ef vel gengur hjá Sjálfstæðisflokknum, verði nánast allt fólk sem ekki hefur reynslu af sveitarstjórnarmálum, a.m.k. ekki borgarstjórnarmálum. Í öðru lagi liggur þar fyrir ef marka má fréttir að sú kona sem reynslumest er í liði Sjálfstæðismanna fær ekki brautargengi. Henni verður ýtt til hliðar. Þetta finnast mér undarlegar röksemdir í málflutningi hv. flutningsmanns.

Síðan endurspeglast svolítið það viðhorf í ræðu hans, því að hann kaus sjálfur að gera Viðreisn og smærri flokka að sérstöku umtalsefni, að þeir sem eru nýir á vettvangi og eru minni séu einhvern veginn ógöfugri en þeir sem eru á fleti fyrir, og þetta sé nú allt öruggast í höndum þeirra sem fyrir sitja í sveitarstjórnum.

Síðan er hægt að nefna eitt í sambandi við fjölda fulltrúa og það kom m.a. fram í umsögn borgarinnar um þetta mál, og rétt er að taka fram að meiri hluti borgarinnar styður núverandi fyrirkomulag eins og lögin eru núna, svo því sé til haga haldið, að borgin er stórt sveitarfélag, ef við höldum okkur við hana því að þetta snýst mest um hana í þessari umræðu, og þar eru stór og flókin verkefni og fjöldi nefnda. Meðal annars hefur einn væntanlegur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins gert að sérstöku rannsóknarefni að kanna hversu margar nefndir eru á vegum borgarinnar. Það eru fróðlegar upplýsingar. Ég ætla ekki að hafa skoðun á hvort þær eru of margar eða of fáar.

En það leiðir til þess að fulltrúar, þ.e. það fólk sem situr í mörgum af þeim nefndum, eru ekki kjörnir fulltrúar. Þeir eru umboðslausir í þeim skilningi, sitja í skjóli þeirra flokka sem fara með völdin í borginni og eru valdir út frá þeim línum. Þeir eru ekki kjörnir. Með því að hafa borgarfulltrúana fleiri fjölgar kjörnum fulltrúum og þeir geta tekið að sér fleiri störf í þágu borgarinnar.

Ég vildi aðeins hnykkja á þessum atriðum. Það er ýmislegt sem mér finnst stangast á í framsögu 1. flutningsmanns frumvarpsins. Ekki var það undirritaður eða aðrir sem hafa tekið til máls sem drógu borgina sérstaklega inn í þetta eða einstaka stjórnmálaflokka og afstöðu þeirra heldur var það flutningsmaður sjálfur. Það hlýtur að vera honum býsna hugleikið hver staða hans eigin flokks er og síðan annarra frambjóðenda í borginni. Mér sýnist að málflutningur hans allur litist talsvert af því. Það er ekki hægt að draga neina aðra ályktun, herra forseti.