Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það skal upplýst hér í upphafi að það kemur mér á óvart að nafn hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar skuli ekki vera á listanum. Ég bað um að allur Flokkur fólksins yrði á málinu og þar á meðal Eyjólfur Ármannsson. Þetta er líklega einhver yfirsjón og vonandi náum við að leiðrétta það. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Ég legg það til hér, virðulegi forseti, að nafni hans verði bætt á málið fyrst við erum byrjuð að flytja það.

Ég tel mig geta fullyrt að töluvert af þessum sveppategundum vaxi hér, að hægt sé að vinna efnið úr sveppum sem vaxa hér á landi. En ég tek fram að ég er ekki sérfróður um málið enda ekki heilbrigðisstarfsmaður. Ég er aðallega að flytja þetta mál af tveimur ástæðum: út af því að þetta hjálpar mörgum og ég er maður frelsisins; ef það er eitthvað sem er að virka fyrir fólk þá á að rannsaka það úrræði og veita leyfi fyrir því. Ég taldi mjög mikilvægt að gera þessa umgjörð löglega og búa hana til.

En af hverju er efnið fellt undir lög um ávana- og fíkniefni? Það má rekja það aftur til ársins 1970–1971 í Bandaríkjunum. Það er ekki flóknara en svo að efnið hefur verið notað í um 3.000 ár en á svokölluðu hippatímabili í Bandaríkjunum var viss hópur farinn að misnota efnið. Þá var verið að taka á misnotkun fíkniefna yfir höfuð í Bandaríkjunum og þannig rataði þetta efni inn í þá löggjöf, undir ávana- og fíkniefnalöggjöfina, og var bannað og hefur svo komið hingað til lands samhliða því.